«

»

Molar um málfar og miðla 1768

REIÐHJÓL – ÖKUTÆKI

Rafn skrifaði eftirfarandi (07.08.2015) Sæll Eiður.

Samkvæmt íslenzkum umferðarlögum er ótvírætt, að reiðhjól, barnavagnar og fleiri slík tæki eru ökutæki. Því kemur á óvart, að af 235 stolnum ökutækjum skuli 227 vera reiðhjól, en aðeins 8 önnur ökutæki, bifhjól, bifreiðar o.fl.

Eins kemur á óvart, að fréttabarn skuli furða sig á að mengið stolin ökutæki skuli vera stærra en hlutmengið stolin reiðhjól.

Er ég að misskilja eitthvað??

Fréttin er á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag, 7.8.2015. Sjá http://www.visir.is/fleiri-okutaekjum-en-reidhjolum-stolid/article/2015708079957

Þakka ábendinguna, Rafn

 

 SKURÐUR FLYTUR SKIP

Nokkrar misfellur voru í þularlestri í fréttum Bylgjunnar í hádegi á fimmtudag (06.08.2015) Meðal annars var okkur hlustendum sagt um Súezskurðinn: Skurðurinn hefur getað flutt 47 skip á sólarhring. Súezskurðurinn flytur engin skip. Hér hefði betur verið sagt að 47 skip hefðu getað farið um skurðinn á sólarhring. Einnig heyrðum við eignarfallið einnrar í stað einnar (nokkuð algeng villa) , – ýmislegt fleira mætti til tína, ef Molaskrifari hefði nennu til.

 

FLEST ER HEY Í HARÐINDUM

Fimmtudagurinn í síðustu viku (06.08.2015) hefur verið óvenjulega lélegur fréttadagur. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þetta kvöld var meðal annars fjallað um skoðanakönnun,sem hefði leitt í ljós, að stuðningsmenn Bjartrar framtíðar væru líklegri en aðrir til að fara í sumarfrí í til útlanda. Samkvæmt öðrum skoðanakönnunum er mjög sennilegt að flestir stuðningsmenn Bjartar framtíðar séu flúnir úr landi – fylgið er komið niður fyrir 5%.

 

FERSKARA EN FERSKT

Findus fyrirtækið auglýsir hraðfryst grænmeti í sjónvarpi og segir okkur að það sé ferskara en ferskt. Þetta er ósatt. Matvæli sem hafa verið fryst geta ekki verið ferskari en matvæli,sem aldrei hafa verið fryst. Hvað segja Neytendasamtökin um svona fullyrðingar, sem auglýsingadeildir sjónvarpsstöðvanna gleypa hráar?

 

SKELFILEGT ATVIK

Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í liðinni viku var kynnt heimildamynd um hið skelfilega atvik, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki. Ekki gott orðalag, að kalla þetta skelfilegt atvik. Enda var því var seinna breytt og talað um hörmulegan atburð. Einhver hefur hér haft vit fyrir textahöfundi. Gott.

 

VIÐ HÆFI

Það hefði svo sannarlega verið við hæfi að Ríkissjónvarpið setti saman svolítinn þátt til að sýna um helgina  um söngkonuna góðu, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, sem átti  sextugsafmæli laugardaginn 8. ágúst. Nóg er til af frábærum söng hennar í safni sjónvarpsins. Ó, nei. Ekkert slíkt var á dagskrá. Forgangsröðun yfirmanna í Efstaleiti er önnur. Dagskrárfénu er frekar varið í gerð þynnstu og sjálfhverfustu þátta, sem lengi hafa sést á skjánum, og eru kallaðir Sumardagar.

 

AÐ KJÓSA SÉR STEFNU

Í Morgunblaðinu sl. föstudag (07.08.2015) var þversíðufyrirsögn: Amnesty kýs sér stefnu um vændi. Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag. Kannski er það sérviska. Amnesty samtökin ætla að móta stefnu gagnvart vændi. Við þá stefnumótun verða væntanlega greidd atkvæði um margar tillögur, sem ef til vill eru ólíkar að efni og stefnu.  Það verður ekki kosin stefna. Það er út í hött.

 

HVENÆR?

Hvenær ætlar Ríkissjónvarpið að sýna okkur þá kurteisi, að segja frá því, þegar verið er að endursýna efni? Kurteisi kostar ekki neitt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>