STÖÐVAST – STAÐNÆMAST
T.H. skrifaði (15.08.2015). Hann vekur athygli á þessari frétt á visir.is (15.08.2015): http://www.visir.is/fjarlaegdu-langt-ror-ur-nefi-skjaldboku—myndband/article/2015150819337
Hann segir síðan:“Sá sem setur myndbandið inn skrifar einnig að blæðingin hafi staðnæmst nánast samstundis og rörið var komið út.“
Það þarf líklega að útskýra muninn á „að staðnæmast“ og „að stöðvast“ fyrir fréttabörnunum!”
Þakka bréfið, T.H. Það virðist stundum lítið um leiðbeiningar eða verkstjórn á ritstjórnarskrifstofum netmiðla.
AÐ EN EKKI AF
K.Þ. benti Molaskrifara á þessa frétt á mbl.is (16.08.2015): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/16/leita_byssumanna_i_paris/
„Leit er hafin af tveimur byssumönnum…“ Hann spyr: ,,Að hverju skyldu byssumennirnir vera að leita?
Ótrúlega er orðið að að heyra sagt og sjá skrifað að leita af einhverju, í stað þess að leita að einhverju.
EKKI RÉTT
Í Morgunblaðinu (15.08.2015) segir á bls. 19. um grindhvalaveiðar Færeyinga: ,,Grindhvalaveiðar fara þannig fram að hvölunum er smalað upp í fjöru þar sem veiðimenn keppast við að drepa þá með skutlum”. Þetta er ekki rétt t. Skutlar eru ekki notaðir við grindhvaladráp. Hvalirnir eru reknir á land þar sem sandfjara er. Síðan eru notaðir flugbeittir hnífar og skorið þvert yfir, rétt aftan við hausinn, þannig að mænan fer í sundur. Hvalirnir drepast á nokkrum sekúndum.
NÖFN OG BEYGINGAR
Molaskrifari vekur athygli á prýðilegum pistli á bls. 22 i Morgunblaðinu (15.08.2015), Tungutaki. Höfundur er Eva S. Ólafsdóttir Í pistlinum er margar þarfar og réttmætar ábendingar.
EKKI VEL SKRIFAÐ
Þessi frétt af visir.is (15.08.2015) er ekki vel skrifuð. Hún er sannast sagna alveg óvenjulega illa skrifuð. Það er ekki skýr hugsun að baki þessum skrifum: http://www.visir.is/mikid-um-stuta-i-borginni/article/2015150819360
Blaðamaðurinn sem skrifar leggur nafn sitt við fréttina. Aðhald ætti að felast í því að birta nafn þess, sem skrifar fréttina á netmiðlinum. Þessi fréttaskrifari þarf leiðsögn.
Reyndar ekki sá eini!
SLÆM FYRIRSÖGN
Ekki var hún góð fyrirsögnin á dv. is (15.089.2015): ,,Rússabannið byrjað: Mörg hundruð tonn af loðnuhrognum siglt aftur til Íslands.” Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/15/lodnuhrogn-leid-til-russlands-siglt-aftur-til-islands/
Enn eitt dæmið um skort á gæðaeftirliti. Viðvaningar, sem eru ódýrt vinnuafl, skrifa. Enginn les yfir eða leiðréttir. Allra síst um helgar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar