AÐ OLLA
Sögnin að olla ( sem reyndar er ekki til ) kemur æ oftar við sögu í fréttaskrifum. Gunnsteinn Ólafsson benti á þetta nýlega dæmi á mbl.is (15.09.2015): ,,Þessar uppgötvanir ullu því að samband hans við móðurina sem ættleiddi hann versnaði og ákvað hann að flýja Pólland.” http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/15/endurfundir_eftir_70_ara_adskilnad/
Fréttin er um endurfundi tvíbura í Póllandi.
Í BEINNI ÚTSENDINGU – ÓKEY, – HVAÐ?
Það er eins og sjónvarpsstöðvarnar telji nauðsynlegt að vera alltaf með viðtal í beinni útsendingu í kvöldfréttum, – hvort sem tilefni er til eður ei. Á mánudagskvöld (14.09.2015) var Stöð tvö með viðtal við utanríkisráðherra í beinni útsendingu úr ráðuneytinu. Bein útsending bætti engu við gildi þessa viðtals. Þarna var tæknin nýtt tækninnar vegna , ekki til að gefa fréttinni vægi eða gildi. Fréttamaður fær ekki hrós fyrir að segja eftir svar utanríkisráðherra: ,,Ókey, Bjarni Benediktsson sagði í fréttum hjá okkur í gær, að það væri óboðlegt.. “ (07:30) http://www.visir.is/section/MEDIA
Í fréttatíma Stöðvar tvö næsta kvöld (15.09.2014) kom aftur frá (sama?) fréttamanni í lok viðtals: Ókey, við fylgjumst með …. Er ekki lágmarkskrafa, að fréttamenn í sjónvarpi séu sæmilega talandi á íslensku?
VANDRÆÐA -R-
Hér hefur áður verið vikið að vandræðum með bókstafinn – r – í samsettum orðum. Í fréttum Stöðvar 2 (14.09.2015) var í skjáskilti sagt frá velferðaþjónustu. Átti að vera velferðarþjónusta.
Af vef Ríkisútvarpsins (15.09.2015): ,,Verslun og benínstöð (svo!)Costco við Kauptún í Garðabæ verða rúmir 20 þúsund fermetrar. Gert er ráð fyrir 791 bílastæði við verslunina sem ætlar að bjóða upp á sjóntækjamælingu, heyrnamælingu auk þess sem hægt verður að fara á kaffihús og kaupa dekk.” Þarna verða sjálfsagt margar heyrnir mældar og svo verður þarna fyrsta kaffihúsið á Íslandi, sem selur dekk.
ILLSKILJANLEG ÓKURTEISI
Það er illskiljanleg ókurteisi Ríkissjónvarpsins að tilkynna okkur ekki dagskrárröskun með skjáborða. Seinni fréttum seinkaði um meira en tíu mínútur á mánudagskvöld (14.09.2015). Engin skjátilkynning, en fréttaþulur baðst afsökunar á seinkuninni í upphafi fréttatímans. Gott. En ekki nógu gott. – Niðursoðnar dagskrárkynningar eru ekki boðlegar og það er ekki tæknilega flókið að setja upplýsingar á skjáborða.
ÍSLENSKT MÁL Í ÖNDVEGI
Það er góður siður í Morgunútvarpi Rásar tvö að ræða vikulega við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins um íslenskt mál og málnotkun. Í spjallinu sl. þriðjudag (15.09.2015) vísaði ráðunautur til stjórnmálamanns, ráðherra sem rætt hafði verið við fyrr í þættinum og talaði sérstaklega vandað mál. Ef átt var við ráðherrann sem sagði: síðast þegar ég tékkaði, talaði um Akranesinga , forsendunar og að forma húsnæðislánakerfið, þá eru kröfurnar um vandað málfar nú reyndar ekki mjög strangar. En það er þarft verk að spjalla um málfar í fjölmiðlum og benda á það sem betur má fara. Til þess arna mætti gjarnan verja meiri tíma í þessari stofnun okkar allra.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar