«

»

Molar um málfar og miðla 1805

UPPNEFNI

Fremur er sjaldgæft að sjá eða heyra fólk uppnefnt í fjölmiðlum.

Í viðtali á visir.is (25.09.2015) talaði útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir um Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kastljóss, og sagði: ,,Ekki mátti minnast á það hjá Þóru litlu Arnórs þegar hún var að fjalla um upphaf lögreglukvenna…”. Þetta segir heilmikið um útvarpsstjóra Útvarps Sögu, en nákvæmlega ekkert um Þóru Arnórsdóttur. Ekki stækkar þetta útvarpsstjórann.  http://www.visir.is/vill-banna-utvarpi-sogu-ad-nota-kennistefin/article/2015150929126

 

ÓTÆKT FYRIRKOMULAG

Þegar dagskrá Ríkissjónvarps fer verulega úr skorðum eins og gerðist sl. föstudagskvöld (25.09.2015) kemur vel í ljós hversu ótækt og óboðlegt það er, að Ríkissjónvarpið skuli enn leyfa sér að vera með niðursoðnar dagskrárkynningar. Ógerlegt er að bregðast við óvæntum breytingum. Prýðilegur og þarfur þáttur um einelti var lengri en gert var ráð fyrir. Við því var ekki brugðist með því að tilkynna seinkun í dagskránni.- Það heyrir annars orðið til undantekninga að seinni fréttir sjónvarpsins hefjist nákvæmlega á réttum tíma. Það er subbuskapur, sem aðrar sjónvarpsstöðvar leyfa sér ekki.

 

KÚPA

Kannski er ekki til stafsetningarorðabók á Fréttastofu Stöðvar tvö. Á laugardagskvöld (26.09.2015) var fjallað um Kúbu. Í neðanmálstexta var landið kallað Kúpa og hvað eftir annað talað um kúpversku þjóðina. Enginn les yfir.

 

ENN UM STOKKINN

Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var talað um sjö konur sem ætluðu að stíga á stokk í ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Konurnar  voru ekki að stíga á stokk og strengja heit. Bara bull. Þær fluttu ræður á málþingi í ráðhúsinu.

 

MEIRA UM STAÐSETNINGU

Nokkrum sinnum hefur hér verið fjall um orðið staðsettur. Þetta er af mbl.is (28.09.2015): ,,Fyr­ir 10 árum byrjaði eldri dótt­ir Önnu í Lang­holts­skóla var starf­semi frí­stunda­heim­il­is­ins færð úr kjall­ara Lang­holts­skóla í nú­ver­andi staðsetn­ingu.”

Starfsemin var færð á núverandi stað, varð færð þangað sem hún er núna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/26/vard_fyrir_bil_a_leidinni_heim/

 

AÐ HALA INN

Af mbl.is (28.09.2015): ,,Kvik­mynd­in Ev­erest stefn­ir í að verða sú er­lenda mynd Baltas­ars Kor­máks sem mest­um tekj­um hef­ur halað inn.” Þetta samrýmist ekki máltilfinningu Molaskrifara. Hann hefði fremur sagt: ,, … sem mestar tekjur hefur halað inn”. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/09/28/everest_stefnir_a_toppinn/

 

AF HEIMASÍÐU FORSETANS

Margt merkilegt og eftirtektarvert má lesa á heimasíðu forsetaembættisins. Forseti hefur til dæmis haldið sérstakan fund með  stjórnendum  Kaupfélagsins á Króknum http://www.forseti.is/Frettir/Ollfrettin/stjornendurkaupfelagsskagfirdinga/   Víða liggja þræðir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>