VERÐA AÐ KRÖFUM
Af mbl.is (28.09.20159: ,,Verði ríkið að launakröfum lögreglumanna fá þeir töluvert meiri hækkun en samninganefnd ríkisins hefur boðið hingað til í kjaradeilunni, eða ellefu prósentum meira.” Þarna ætti að standa, – til dæmis – Gangi ríkið að launakröfum lögreglumanna, samþykki ríkið launakröfur lögreglumanna, verði ríkið við launakröfum lögreglumanna.
ÞRÁTT FYRIR ?
Úr frétt á mbl.is (29.09.2015): ,,Rúnar Friðgeirsson var um borð í vélinni en lendingin gekk að óskum”. Var það þrátt fyrir eða vegna veru Rúnars um borð?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/29/naudlenti_a_gardermoen/
SLEGIN ELDINGU!
Fréttaflutningur dv.is er stundum einkennilegur. Í fyrirsögnum á forsíðu á netinu er oft illmögulegt að greina milli þess sem er innlent og þess sem er erlent. Þessi fyrirsögn var á vef dv.is (29.01.2015): ,, Við erum öll sem slegin eldingu”, segir Jim Carrey um dauða fyrrverandi unnustu.
Sá sem skrifaði þetta hefur sennileg aldrei heyrt orðtakið að vera þrumu lostinn, vera mjög undrandi , höggdofa. http://www.dv.is/frettir/2015/9/29/vid-erum-oll-sem-slegin-eldingu-segir-jim-carrey-um-dauda-fyrrverandi-unnustu/
AÐ ÁVARPA VIÐBURÐ
Af mbl.is (29.09.2015): ,,Gunnar Bragi Sveinsson ávarpaði í morgun viðburð í höfuðstöðvum SÞ, um jafnari framtíð fyrir alla og baráttuna gegn ójafnrétti og mismunun.”
Hvernig ávarpa menn viðburð? Seint verður sagt að þetta orðalag sé til fyrirmyndar. Flutti ráðherrann ekki ræðu á fundi eða málþingi, ráðstefnu?
HLAUPIÐ NÁI BYGGÐ!
Undarleg fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins: Hlaupið nái byggð á fimmtudagskvöld. Eins og verið sé að hvetja hlaupið! Er ekki líka dálítið undarlegt að tala um að hlaupið ,,komi til byggða”? Hvað segir málfarsráðunautur?
http://www.ruv.is/frett/hlaupid-nai-byggd-a-fimmtudagskvold
SELJA OG VERSLA
Seljandi snjallsíma, sem þetta er haft eftir á mbl.is (29.09.2015) gerir ekki greinarmun á sögnunum að kaupa og að versla. Þetta er því miður of algengt að heyra: „Við verslum bara af símafyrirtækjunum þegar þetta er komið til landsins en þangað til megum við sprella svona án þess að einhver sé að skipta sér af því.“ Við kaupum bara af símafyrirtækjum, hefði hann betur sagt.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/29/seldu_15_sima_a_190_thusund_kronur/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar