NÝJUNG TIL BÓTA
Fréttaborði Vísis, sem nú rennur yfir skjáinn í fréttatímum Stöðvar tvö er ágæt nýjung og bætir fréttatímana. Veðurfréttir á Stöð tvö eru skýrar og góðar svo langt sem þær ná, sem er reyndar ekki mjög langt, eða tvo daga fram í tímann.
Molaskrifari er áhugamaður um veðurfréttir og furðar sig enn á því hversvegna Ríkissjónvarpið setur ekki staðanöfn á veðurkortin eins og velflestar eða nær allar sjónvarpsstöðvar gera. Okkur hefur einu sinni eða tvisvar verið sýnt að tæknilega er hægt að gera þetta. Hversvegna er það ekki gert?
Veðurfréttirnar í sjónvarpinu eru yfirleitt með miklum ágætum og skýrt fram settar (þótt spáin sé ekki ævinlega eins og maður helst kysi!). Stundum er eins og handahóf ráði því til dæmis hvort við fáum að sjá veðrið í vesturheimi. Það ætti að vera fastur liður.
AÐ ÞRUMA
,,Þrumaði knöttinn”, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í seinni fréttum sjónvarps (29.09.2015). Þrumaði knettinum, hefði hann betur sagt. Skaut fast.
NÚ ER HÓTAÐ
Næstum daglega hótar Ríkissjónvarpið okkur nú með því að byrja að nýju að sýna svokallaðar Hraðfréttir. Það er engin leið hafa samúð með slæmri fjárhagsstöðu Ríkissjónvarpsins meðan fé er á glæ kastað með framleiðslu á efni eins og þessu, – verði það eitthvað í líkingu við það sem við höfum séð til þessa.
SORI
Molaskrifari hefur nefnt að hann hefur ekki þolinmæði til að hlusta á símabullið í Útvarpi Sögu nema í örfáar mínútur í senn. Hlustaði skamma stund á fimmtudagsmorgni (01.10.2015) Þá var símavinur að ræða við Pétur Gunnlaugsson, stjórnarformann Útvarps Sögu. Sá sem hringdi kallaði Angelu Merkel kanslara Þýskalands að minnsta kosti í tvígang einn mesta fjöldamorðingja síðari ára. Ekki heyrði Molaskrifari stjórnarformanninn hreyfa andmælum, – kom að vísu inn inn í samtalið í miðju kafi. Hreint með ólíkindum, en soralegt orðbragð og svívirðingar finna sér oftast einhvern farveg.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar