«

»

Molar um málfar og miðla 1812

DÝRBÍTAR

N.N. sendi molum eftirfarandi vegna fréttar á dv.is (9.10.2015):

Fréttin:

http://www.dv.is/frettir/2015/10/9/fjarhundaflokkur-drap-hatt-i-hundrad-lomb

Hann segir:,,Seint munu bændur kalla þessi dýr „fjárhunda“! Dýrbítar er íslenzka orðið yfir svona skemmd grey. Fjárhundur getur glefsað til að smala, eins og hann er þjálfaður til. Bítur ekki að öllu jöfnu.”. Molaskrifari þakkar bréfið. Dýrbítar eru refir eða hundar, sem leggjast á fé, bíta sauðfé,segir orðabókin.

 

… EN Á ÞESSU ÁRI

Í yfirliti á undan og eftir fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (09.10.2015) var sagt: Landspítalanum hafa aldrei borist jafn stórar gjafir frá fyrirtækjum en á þessu ári. Hefði átt að vera: … sem á þessu ári eða og á þessu ári. Einkennilegt að enginn skuli hafa hlustað og leiðrétt. Gæðaeftirlitinu enn ábótavant.

 

ÚR EINU Í …..

Vikan með Gísla Marteini á föstudagskvöld (09.10.2015) var ágæt dægrastytting, ristir ekki djúpt, enda  sjálfsagt ekki tilgangurinn. Molaskrifari játar hinsvegar ,að þáttinn Frímínútur,sem kom í kjölfarið skildi hann ekki. Kannski á þetta að vera skemmtiefni. Kannski finnst einhverjum þetta fyndið, en það fór alveg framhjá skrifara. Ýmsir telja hann líka gjörsamlega lausan við kímnigáfu! Á eftir kom svo hefðbundið Kastljós, – ágætlega spennandi. Þar sem höfuðborgin hafði nauman sigur gegn Fljótsdalshéraði. Skrifara þóttu reyndar gildrurnar í orðaröðuninni hjá Héraðsbúum talsvert fleiri og snúnari, en þær sem Reykvíkingar glímdu við..

Það er varla, að það taki því að eyða orðum að subbuþættinum Hraðfréttum (10.10.2015) , sem er á dagskrá á laugardagskvöldum í Ríkissjónvarpinu. Hvers vegna lætur fólk eins og Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri, hafa sig í að taka þátt í svona fíflagangi? Hún þarf ekki að auglýsa sig eins og stjórnmálamennirnir sem láta plata sig út í allskonar vitleysu í þessum þáttum. Samkvæmt dagskrá eru 27 þættir ósýndir. Fjársvelt ( að eigin sögn) Ríkisútvarp hellir tugum milljóna í þessa vitleysu. Makalaust.

 

ÓSNERTUR – ÓSNORTINN

Þessu er sífellt ruglað saman. Síðast í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (09.10.2105) Í þætti Gísla Marteins sagði stjórnandi, að enginn Íslendingur hefði verið ósnertur. Hefði átt að vera ósnortinn. Annað er líkamlegt, snerting. Hitt huglægt. – Afmæliskakan var ósnert, þegar gestirnir komu. Ræðan var svo góð, að enginn áheyrenda var ósnortinn.

Annað sem stundum skolast til heyrðist í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (10.10.2015) Þá var sagt frá hátíðahöldum í tilefni 70 ára afmælis hins svokallaða verkamannaflokks Norður Kóreu. Sagt var að þar hefði engu verið til sparað. Málvenja er að segja engu til kostað, ekkert til sparað.

 

GÓÐ ÚTTEKT

Góð umfjöllun og úttekt í Kastljósi í gærkveldi (12.10.2015) á erfiðu vandamáli á Akranesi, á Neðri Skaganum. Eftir situr, að hausaþurrkun á ekki heima í íbúðahverfi. Það er ekkert flókið. Menningarpistillinn, kvikmynda- og leikhúsgagnrýni þeirra Brynju og Hlínar var fróðlegur, – vakti forvitni og eftirvæntingu, – tilhlökkun.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>