«

»

Molar um málfar og miðla 1829

 

BÍLARNIR KOMU ÚR GAGNSTÆÐRI ÁTT

Lesandi benti á frétt á mbl.is (02.11.2015):

Í fréttinni segir: ,, Þar rák­ust sam­an tvær bif­reiðar, sem voru að koma úr gagn­stæðri átt” : Hann spyr:,, Eru bílar hættir að mætast?” Hann kveðst hafa fengið þær upplýsingar á mbl.is að orðalagið sé ættað frá lögreglunni fyrir austan. Viðmælandi hans efaðist um þá útskýringu og sagði, að yfirvöld hefðu örugglega notað kerfismál og sagt bifreiðarnar ,,hafa fylgt andstæðum ferlum”. Lesandi lauk bréfi sínu með þessum orðum:,,Mér sýnist stundum eins og Moggi hafi skotið skjólshúsi yfir erlenda flóttamemenn, málið er svo bjagað, en í þessu tilviki er sökin eystra.” Molaskrifari þakkar bréfið.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/02/alvarlegt_bilslys_a_eskifirdi/

 

ÞARSÍÐASTA

Nýlega sá skrifari í blaði að talað um þarsíðustu bók Arnaldar. Honum lætur þetta ekki kunnuglega í eyrum. Væntanlega er átt við næst síðustu, næst nýjustu bók Arnaldar. Netleit leiddi í ljós að líka er talað um þarnæst síðustu jól, þarnæst síðasta sumar og þar næst síðustu aldamót.

Þetta orðalag er skrifara framandi, hefur þó hnotið um það í vaxandi mæli undanfarin misseri, og hann spyr , – er þetta nýtt í málinu?

 

FYRIRSAGNIR

Í fimm dálka fyrirsögn á bls. 6 (02.11.2015) segir: RÚV vegi að starfsheiðri fólks. Það er ekki verið að hvetja Ríkisútvarpið til að vega að starfsheiðri fólks eins og ætla mætti. Heldur telur formaður nefndar um starfsemi Ríkisútvarpsins, að stofnunin hafi í yfirlýsingu vegið að starfsheiðri þeirra sem í nefndinni sátu. Enn eitt dæmið um óæskilega notkun viðtengingarháttar.

Í undirfyrirsögn í Fréttablaðinu sama dag segir: Farþegi sem keypti innanlandsflug í gegnum Icelandair var gert að greiðarúmar tuttugu þúsund krónur fyrir að breyta innanlandsflugi.

Við þetta er ýmislegt að athuga. Þarna ætti að standa: Farþega, sem keypti, …. var gert að greiða … Farþeginn keypti miða í innanlandsflugi hjá Icelandair. Í fréttinni kemur fram að þeir skilmálar sem Icelandair býður farþegum, sem til dæmis kaupa fjórar flugferðir í einu, eru beinlínis fjandsamlegir neytendum og þessu gróðafélagi ekki til sóma, – síður en svo.

 

BORIN OG BÚIN

Að vera boðin/n og búin/n til að gera eitthvað , er að vera fús , viljugur til að gera eitthvað, – hjálpa til við eitthvað.

Þetta brenglaðist svolítið hjá mbl.is á þriðjudag (03.11.2015)

,,Ingi­björg kveðst hins­veg­ar bor­in og búin til að taka að sér frek­ari sím­vörslu fyr­ir ráðuneytið í framtíðinni.”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/03/ekki_forsaetisraduneytid_heldur_ingbjorg/

 

KILJAN

Hvað sem öðru efni líður, þá finnst Molaskrifara Kilja Egils Helgasonar bera af öðru efni í Ríkissjónvarpinu. Þátturinn í gærkvöldi (04.11.2015) var þar engin undantekning.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>