«

»

Molar um málfar og miðla 1833

ALLT ER STAÐSETT

Úr frétt á mbl.is (07.11.2015):,, Hjól­hýsið var staðsett í Garðabæn­um.” Hjólhýsið var í Garðabænum. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/07/busettur_i_hjolhysi_i_gardabaenum/

 

ÞÁGUFALLIÐ

Haft eftir formanni fjárlaganefndar á mbl.is (07.11.2015): ,,Lang­ar þessu fólki til þess að land­inu gangi illa?” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/07/osynilegur_her_neikvaedrar_umraedu/

Tek sérstaklega fram ,að þetta er ekki árás, heldur ábending og ekki úr launsátri.

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Hvað er viðtengingarháttur að villast í þessari fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (08.11.2015)? Hafi ekki hugmynd um hvar eigi að spara.

Auðvitað ætti fyrirsögnin að vera í framsöguhætti: Hafa ekki hugmynd um hvar eigi að spara.

Sjá: http://www.ruv.is/frett/hafi-ekki-hugmynd-um-hvar-eigi-ad-spara

Annað dæmi um óþarfa notkun viðtengingarháttar á fréttavef Ríkisútvarps (09.11.2015): Nafnbirting geri brotaþolum engan greiða. Hversvegna ekki framsöguháttur? Nafnbirting gerir brotaþolum engan greiða. http://www.ruv.is/frett/nafnbirting-geri-brotatholum-engan-greida

Er hætt að kenna notkun viðtengingarháttar í grunnskólum?

 

ORÐTAK

Af vef visir.is (08.11.2015): ,, Hann var undir áhrifum áfengis og sagðist ekki í nein hús að venda”. Hér vantar eitt orð inn í, – svo öllu sé til skila haldið. Hann sagðist ekki eiga í nein hús að venda. Hann sagðist hvergi eiga skjól, hvergi eiga athvarf. Sjá: http://www.visir.is/mikid-um-olvun-a-airwaves/article/2015151108992

 

 

JARÐFALL

Í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (09.11.2015) var sagt frá því er jarðfall varð, gjá eða gígur myndaðist við veitingastað í Bandaríkjunum og gleypti tólf bíla. Um orsök þess að þetta gerðist  sagði fréttamaður:,, Talið er að rigningar og frárennslismagnið hafi eitthvað haft um það að segja”. Þetta er ekki mjög vel orðað. Skárra hefði verið að segja til dæmis , að talið væri að regnvatn hafi skolað burt jarðvegi undir malbikuðu yfirborði.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>