«

»

Molar um málfar og miðla 1842

 

AÐ ÆRA ÓSTÖÐUGAN

Það ærir óstöðugan að gera athugasemdir við lögreglufréttir, til dæmis á mbl.is (20.11.2015): ,,Kon­an var met­in ekki hæf til að aka öku­tæki” – Konan var talin vanhæf (ófær um að )  til að aka bíl, bifreið. .Og úr sömu frétt: ,, Ökumaður­inn er grunaður um ölv­un við akst­ur og er vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls.” … og var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Tvö önnur dæmi um þetta sama úr sama miðli (22..11.2015): ,, …. sömu­leiðis grunaður um lík­ams­árás og var vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls.” Og:,, Var hann í ann­ar­legu ástandi og vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls.. Er þetta bara tekið hrátt úr færslum lögreglunnar? Engin tilraun gerð til að lagfæra, færa til betra máls? Eða er þetta heimagert á mbl.is?

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/22/tvaer_likamsarasir_i_hofudborginni/

 

RÉTT Í FYRIRSÖGN, RANGT Í TEXTA

Talað er um að hafa einhvern að blóraböggli,nota einhvern sem blóraböggul, er að skella skuld á einhvern að ósekju. Í fyrirsögn á mbl.is (22.11.2015) segir: Starfsfólk gert að blóraböggli. Í fréttatextanum segir hinsvegar: ,,Verði sú raun­in er fyr­ir­tækið að nota starfs­fólk og verka­lýðfé­lög að blóra­böggli fyr­ir lok­un þess, að sögn tals­manns starfs­manna ál­vers­ins.” Þetta er ekki rétt og venjubundin notkun orðtaksins. – Sjá, Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 81.

 

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/22/starfsfolk_gert_ad_bloraboggli/

 

AÐ SAFNA FYRIR

Í Molum var nýlega (1835) minnst á orðalagið að safna fyrir. Þar var minnst á mál hjúkrunarfræðings, sem nú er fyrir dómstólum, og sagt að verið væri að safna fyrir henni. Það var verið að safna fé handa henni, til að styrkja hana. Enn mátti heyra svipað dæmi í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (21.11.2015). Þar var verið að segja frá styrktartónleikum í Kristskirkju. Þulur las: ,, Í ár er safnað fyrir ungu fólki með alvarlega geðsjúkdóma”. Það er ekki verið að safna fyrir ungu fólki. Það er verið að safna fé til að styrkja ungt fólk með alvarlega geðsjúkdóma. Bæði þessi dæmi, sem nefnd hafa verið í Molum eru úr Ríkisútvarpinu. Nú ætti málfarsráðunautur að láta til sín taka.

 

AÐ KJÓSA EÐA GREIÐA ATKVÆÐI

Ágætur fréttamaður, einn af þeim áheyrilegustu, sagði í seinni fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (19.11.2015) frá samþykkt frumvarps á bandaríska þinginu. Fréttamaður sagði, að svo og svo margir þingmenn hefðu kosið með frumvarpinu. Greidd eru atkvæði um frumvörp. Það er ekki er kosið um frumvörp. Þingmennirnir sem greiddu atkvæði um frumvarpið voru kosnir. Furðulegt hve annars glöggir fréttamenn rugla þessu oft saman.

 

FRAMFÖR

Í gærkvöldi (23.11.2015) var fimm mínútna seinkun seinni fréttum í Ríkissjónvarpinu tilkynnt á skjáborða. Þetta er framför. Þetta á auðvitað alltaf að gera , þegar fréttum eða öðrum dagskrárliðum seinkar. Takk.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>