«

»

Molar um málfar og miðla 1871

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Sigurður Sigurðarson sendi eftirfarandi (20.01.2016): ,,Sæll,

Þessi pistill á einhverjum vef, sem nefnist Fréttanetið, er ekki til fyrirmyndar. Kíktu á.” http://frettanetid.is/enginn-tharf-a-mjolk-ad-halda/

,, …  15% barna frá Kákasus ríkjunum geta ekki melt sykrurnar (laktósann) í mjólkinni. “  Kákasusríkin???  Þarna hefur þýðandinn sennilega ekki skilið enska orðið caucasian –  hvítur , – af evrópskum uppruna. Rétt er það, Sigurður. Þakka ábendinguna.

 

HVATNING OG SKORTUR

Fyrirsögn af hringbraut.is (20.01.2016): Birgitta ati þingmenn auri og lygum. Það er ekki verið að hvetja Birgittu (Jónsdóttur) til að ata þingmenn auri og lygum eins og vænta mætti af lestri fyrirsagnarinnar. Þingbróðir Birgittu, Ásmundur Friðriksson, var að væna hana um að ata þingmenn auri og lygum. Því miður nokkuð alengt að sjá samskonar orðalag í fyrirsögnum.

Önnur undarleg fyrirsögn. Nú á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016): Á ekki að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Þetta hljómar eins og spurning. Vantar bara spurningarmerkið.  http://www.ruv.is/frett/a-ekki-ad-rikja-skortur-hja-bornum-a-islandi

Ætti fremur að vera: Ekki á að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Hvar er yfirlesturinn?.

 

AFSKIPTI

Í þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016) er tvívegis talað um að skipta sér að einhverju, í stað þess að skipta sér af einhverju, hafa afskipti af einhverju, blanda sér í í eitthvað. Sjá: http://www.ruv.is/frett/eins-og-ad-fara-i-fotunum-i-sund

,, Nadja segir að eins og í sundlaugum Íslands þar sem fólk skiptir sér að þeim ferðamönnum sem þvo sér ekki fyrir sundið, þá væri varla hægt að fara í sundfötum í almenningssánu í Finnlandi án þess einhver skipti sér að því og í bréfinu segir:”

Enginn les yfir.

 

 

 

STÖÐUGAR FRAMFARIR

Í morgunþætti Rásar tvö (22.01.2016) í Ríkisútvarpinu sagði einn umsjónarmanna, að dönsku konungshjónin hétu Jóakim og María. Þetta er allt í stöðugri framför. Stundum er betra að hugsa fyrst og tala svo. Eða bara vita.

 

HIÐ MARGRÓMAÐA

Í fréttum Ríkisútvarps kl. 16 00 á fimmtudag (21.01.2016) var sagt meðal annars: ,, … sem framleiðir hið margrómaða Gunnars majoens”. Nú fann Molaskrifari ekki orðið margrómaður í íslenskri orðabók, en sögnin að róma þýðir að lofa hrósa , að vera vel rómaður, er að vera nafnfrægur. Margrómaður þýðir þá líklega mjög hrósverður.   Fréttastofan á ekki að leggja dóm á framleiðsluvörur frekar en annað.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>