«

»

Molar um málfar og miðla 1873

 

LESTUR VEÐURFRÉTTA

Skúli Brynjólfur Steinþórsson skrifaði sl. föstudag (22.01.2016):  ,,Heill og sæll,
ég sendi veðurstofunni fyrirspurn um hvort ekki væri hægt að láta þá lesa veðurfréttir sem hefðu góðan íslenskan framburð, engin svör. Það er ef til vill ekki hægt að ætlast til þess að fólk tali góða íslensku í vinnunni , en þegar er verið að útvarpa til allrar þjóðarinnar í lengri tíma finnst mér að það skipti máli að sé á góðri íslensku.”- Þakka bréfið, Skúli Brynjólfur. Einkennilegt að Veðurstofan skuli ekki svara kurteislegri fyrirspurn. Svo er það rétt, sem þú sagði í tölvupósti síðar, að lestur í útvarpi á auðvitað alltaf að vera til fyrirmyndar,- getur beint og óbeint stuðlað að bættri framsögn og lestri.

Á fimmtudagskvöld eftir tíu fréttir (21.01.2016) voru veðurfregnir til dæmis að taka ekki vel lesnar. Sá sem las sagði aftur og aftur um vindhraða , metrar sekúndu, – ekki metrar á sekúndu. Líka gerist það stundum, að veðurfréttir eru lesnar með mjög einkennilegri hrynjandi, allar setningar enda á lækkandi tóni, – mjög óeðlilegt og hvimleitt. Yfirmenn á Veðurstofunni hljóta að heyra þetta. Hef reyndar nefnt þetta áður. Veðurstofa Íslands þarf að vanda val þeirra, sem lesa veðurfréttir. Þá er ekki verið að amast við þótt lesið sé með hreim, ef lesturinn er skýr og skiljanlegur.

 

ORÐRÓMUR – SLÚÐUR

Geir Magnússon skrifaði (22.01.2016):
,,Á hverjum morgni opna ég mbl.is og það bregst varla að ég

rekst á handverk Una Danska, en það kalla ég þessa krakka, sem vita ekki að ákveðinn greinir í íslenzku er viðtengdur. Krakkarnir byrja allar fréttir á “hin” eða “hinn”.Nýlega var svo grein um vísindamenn, sem telja sig hafa fundið sönnun fyrir þeirri kenningu Einsteins að aðdráttaraflið í alheimnum gangi í bylgjum.

Þetta hefur ekki verið sannreynt og að hætti góðra vísindamanna hefur ennþá ekkert verið staðhæft, en orðrómur er um þetta.

Einhver krakkinn þýddi erlenda, líklega enska, frétt um þetta

og sagði í fyrirsögn að slúðrað væri um þetta. Ég hringdi í

vinkonu mína hjá mbl.is og benti henni á að enska orðið rumor þýddi ekki slúður, orðið gossip væri notað um það. Hún ræddi við þýðandann, sem brást hinn versti við og sagði að orðið slúður væri rétt þýðing.

Hvað er hægt að gera við svona fólk?

Skyldi Davíð vera maðurinn til að tala við um þetta?”

Molaskrifari þakkar bréfið. Davíð mundi áreiðanlega taka þér vel.

 

AUGNABLIKIÐ

Það hefur áður verið nefnt hér, að þættirnir sem sýndir eru í Ríkissjónvarpið á föstudagskvöldum, Augnablik úr 50 ára sögu sjónvarpsins eru öndvegisefni. Þar er stiklað á stóru úr gömlum skemmtiþáttum og auglýsingum. Vel valið og vel fram sett. Þættirnir eru samt  í styttra lagi. Þeir mættu að skaðlausu vera 40 mínútur, – nóg er til af öndvegisefni með úrvals listafólki eins og við sáum á föstudagskvöldið (22.01.2016). Þetta efni stendur undir 40 mínútna þáttum og vel það.

 

SIGMUNDUR VILL MAKASKIPTI

Þessa fyrirsögn sá ég á netinu fyrir helgina. Að forsætisráðherra vildi makaskipti. Rétt, en kannski villandi í huga sumra. Makaskipti eru samningsbundin skipti eigenda (einkum) á fasteignum.

 

ÁRSGRUNDVÖLLURINN OG SNJÓSTORMUR

Óþurftarorðið ársgrundöllur skýtur alltaf upp kollinum í fréttum öðru hverju. Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um skógrækt. Þar var sagt: ,,Helmingi færri trjáplöntum er plantað á ársgrundvelli...” Hér hefði ekki farið illa á að segja: Helmingi færri trjáplöntur eru nú gróðursettar á ári …. Annað óþurftarorð kom við sögu í útvarpsfréttum af stórhríð og fannfergi vestra. Það var auðvitað snjóstormur. Erfitt að uppræta þetta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður skrifar:

    Er hægt að fá meira að heyra um handverk Una danska?
    Einu sinni lærði ég, að ákveðinn greinir í íslenzku væri tvenns konar: laus og viðskeittur. Gott ef sá lausi var ekki kallaður lýsingarorðsgreinir. Mér finnst, að handarverk Una danska komi fyrst og fremst fram í einhæfri orðaröð. Orðaröð í íslenzku er frjáls (óbundin). T.d. „Þetta er sjóhatturinn minn.“ Eignin á unda eigandanum, enda hlutlaus staðhæfing. Aftur á móti „Þetta er minn sjóhattur!“ Eigandinn á undan eigninni, því séstök áherzla er á eignarhaldinu. (Komdu með hann!). Ef lesnar eru aðsendar greinar eða fréttir í öllum prentmiðlum, þá er næstum undantekningarlaust, að eigandinn komi á undan eigninni. Ekki bara handverk Una danska, heldur er fyrirmyndin nú á dögum frekar sótt í ensku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>