«

»

Molar um málfar og miðla 1878

RÍKISSJÓNVARPIÐ,,GENGUR PLANKANN

Molavin skrifaði (01.02.2016):,, Ríkissjónvarpið sagði í fréttafyrirsögn í kvöld (1.2.2016): „Samfylkingin gengur plankann“ þegar fjallað var um slakt gengi í Gallup-könnun. „To walk the plank“ er algengt orðtak í enskri tungu, komið frá þeirri þjóðsögu að sjóræningjar hafi tekið menn af lífi með því að láta þá ganga með bundið fyrir augu eftir planka og út í sjó við fögnuð þeirra sem fylgdust með.

 

Burtséð frá því að erfitt er að yfirfæra þessa samlíkingu við aftöku og gleði áhorfenda á slakt gengi í skoðanakönnun á miðju kjörtímabili – þá er það nú varla RUV samboðið að sletta enskum orðaleikjum í fyrirsögnum þegar við eigum margar góðar, íslenzkar. Það eru ekki allir áhorfendur Sjónvarps jafn sleipir í enskunni og viðkomandi fréttamenn telja sig vera. „Feigðarför“ væri vitaskuld góð þýðing á orðtakinu, hvort sem þessi túlkun fréttamanns getur talizt til fréttaskýringar eða gráglettni.” Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut um þetta líka. Fannst það í fyrsta lagi asnalegt og í öðru lagi montlegt.

 

 

LANGT ER SEILST

Undarleg ,,frétt” (verðskuldar reyndar ekki það heiti) var þrídálkur á forsíðu Morgunblaðsins á mánudag (01.02.2016). Þar var agnúast út í það að Mörður Árnason íslenskufræðingur læsi Passíusálmana í Ríkisútvarpinu nú á föstunni. Tilefni skrifanna er að Mörður Árnason á sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og er varaþingmaður Samfylkingar. Kannski er það skoðun Morgunblaðið, að menn verði ólæsir við það að taka sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og vera varaþingmenn!

Mörður Árnason sá um mjög vandaða útgáfu Passíusálmanna, sem kom út í fyrra. Hann er líka afburða góður lesari. Það geta allir heyrt, sem leggja við eyrun eftir tíu fréttir á Rás eitt á kvöldin.

Þessi vinnubrögð Morgunblaðsins eru sérkennileg, lágkúruleg. Enn setur þetta gamla blað niður.

 

STIGU ÚR SÆTUM

Svona lauk frétt mbl.is um að sómakonunnar og brautryðjandans Ragnhildar Helgadóttur fv. þingmanns og ráðherra hefði verið minnst á þingfundi á mánudag (01.02.2106).

,, Að ræðu Kristjáns lok­inni stigu þing­menn úr sæt­um.” Ótrúlegt að svona villa skuli sleppa í gegn. Hvar voru síurnar og yfirlesturinn? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/thingmenn_minntust_ragnhildar/

 

HEIÐRÍKIÐ!

Trausti benti á frétt á mbl.is (30.01.2016): Í fréttinni segir meðal annars: „Í dag fór frostið niður í fjór­tán stig í heiðrík­inu á Suður­landi.“ Jamm og já!- sagði Trausti. –  Ekki nema von. Hér var átt við heiðríkju, – heiðan himin. Sjá:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/frostid_for_nidur_i_14_stig/

 

AÐ SVIPA TIL

Úr frétt á mbl.is (28.01.2016) um torséða þotu, sem Japanir hyggjast taka í notkun: ,, Þotan er sögð svipa til hinn­ar banda­rísku F-22 Raptor, sem fram­leidd er af Lockheed Mart­in vest­an­hafs.”

Einhverju(m) svipar til einhvers. Eitthvað líkist einhverju. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg, til dæmis: Sagt er að þotunni svipi mjög til hinnar bandarísku … http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/28/torsed_orrustuthota_synd_i_japan/

 

VIÐ SAMA HEYGARÐSHORNIÐ

Rósa sendi Molum ábendingu (30.01.2016) og segir að mbl.is sé enn við sama heygarðshornið. Hún vísar til þessarar fréttar:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/30/sextan_forust_ur_hungursneyd/

Fyrirsögn fréttarinnar er: Sextán fórust úr hungursneyð. Í fréttinni segir:,, Að minnsta kosti sex­tán manns til viðbót­ar hafa far­ist úr hung­urs­neyð í bæn­um Madaya á Sýr­landi síðan bíla­lest með neyðargögn kom til bæj­ar­ins fyrr í mánuðinum. “ . Fólkið dó úr hungri,- svalt í hel. – Þetta hefur nýlega verið nefnt í Molum, Molar um málfar og miðla 1868, 18.01.2016.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>