BLÓM OG BLÓMI
Molalesandi skrifaði (02.02.2016): ,, Oft er hann broslegur, þekkingarbresturinn. Á vísi.is (http://www.visir.is/noel-eins-og-blom-i-eggi-a-siglufirdi/article/2016160209767) er sagt frá ævintýri ferðalangsins Noel, sem villtist til Siglufjarðar í leit að hóteli við Laugaveginn. Fréttin er undir fyrirsögninni: „Noel eins og blóm í eggi á Siglufirði“. Akkúrat. Skyldi blaðamaður oft hafa orðið var við blóm í eggjum sínum. Og þá hvernig blóm? Rósir – eða kannske fífla? Það ætti sennilega best við hér. Í eggjum eru eggjablómar en ekki blóm. Blómarnir í eggjunum er líka oft nefndir eggjarauða. Þeim má ekki rugla saman við fífla – og enn síður við fífl. Fífl og fíflar er nefnilega tvennt ólíkt. Alveg eins og blóm og blómi. “ – Þakka bréfið. Orðabókin nefnir reyndar einnig orðasambandið eins og blóm í eggi. Alla sína skóla- og blaðamennskutíð var Molaskrifara kennt að þetta ætti að vera eins og blómi í eggi. Kannski hafa svo margir farið rangt með þetta að orðabókarmenn telja það orðið rétt!
FÓLK OG FJÖLGUN
Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu.” Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/
AÐ ERFA OG AÐ ERFIÐA
Af dv.is (01.02.2016) um erfðaskrá Davids Bowies: ,,Þannig erfiðar aðstoðarmaður hans tvær milljónir dala, jafnvirði 260 milljóna íslenskra króna, og barnfóstra sonar hans, Duncans, erfir eina milljón dala, jafnvirði 130 milljóna íslenskra króna.” Þarna hefur yfirlesturinn verið í handaskolum. Eitt er að erfa. Annað að erfiða. http://www.dv.is/folk/2016/1/30/adstodarmadur-david-bowie-erfir-260-milljonir/
FYRIR RANNSÓKN MÁLS
Af mbl.is (30.01.2016): ,,Þá var maður handtekinn á þriðja tímanum í nótt við veitingahús í miðborg Reykjavíkur grunaður um þjófnað á farsímum. Maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.” Ekki í fyrsta skipti,sem þetta orðalag sést. Hér er átt við að maður hafi verið fangelsaður vegna rannsóknar máls. Ekki fyrir rannsókn. Er þetta kannski staðlað orðalag,sem tekið er hrátt upp úr dagbók lögreglunnar, hugsunarlaust? Gæti verið.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/simathjofur_og_tjonvaldar_handteknir/
BEITTUR ÞÁTTUR
Okkur er sagt, að Kastljós Ríkissjónvarpsins sé ,,beittur fréttaskýringaþáttur”. Víst er það rétt á stundum. En ekki þegar löngum tíma er varið í fjalla um evrópsku söngvakeppnina (02.02.2016) ,sem nú er að heltaka þennan þjóðarfjölmiðil. Skrítið að heyra fullorðið fólk tala um þetta eins og jólin væru í nánd. En svo er margt sinnið ….
Í gærkveldi (03.02.2016) var prýðilegt innslag í Kastljósi um hætturnar sem fylgja farsímanotkun undir stýri. Þar var sérstaklega fjallað um flutningabílstjóra. Framhald boðað í kvöld. Gott að vekja athygli á þessu. Lögreglan virðist láta þetta afskiptalaust að mestu. Auka þarf aðhald og eftirlit. Stórhækka sektir.
Mikið var skrifað um misnotkun bílastæða,sem ætluð eru fötluðum. Sektir voru hækkaðar. Molaskrifari fylgist svolítið með þessu. Það er, sem betur fer, orðið sjaldgæft að sjá þessi bílastæði misnotuð nú orðið.
Ástandið hefur stórbatnað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar