«

»

Molar um málfar og miðla 1919

ÞRUMU LOSTIN ÞJÓÐ

Eftir Kastljós gærkvöldsins er þjóðin þrumu lostin. Forsætisráðherra á engan kost annan en að segja af sér. Forsætisráðherra Íslands og frú voru í gærkvöldi fréttaefni heimsmiðlanna, svona milli Pútíns og forseta Úkraínu . Það var þá líka landkynningin!

Morgunblaðið býsnast næstum yfir að Jóhannes Kr. Kristjánsson hafi fengið 1,5 milljónir fyrir sína vinnu við þennan sjónvarpsþátt. Það eru smámunir, – kannski átta til tíu vikna laun góðs blaðamanns á Mogga , -eða hálfsmánaðar ritstjóralaun, nær því þó sjálfsagt ekki.

Var ekki Jóhannes Kr. látinn fara frá Kastljósi Ríkisútvarpsins vegna þess að ekki var til fé að greiða honum laun? Man ekki betur.

Jóhannes Kr. og allir sem unnu að þessu verkefni eiga mikinn heiður skilinn. Þetta var afrek. Í rauninni voru þetta mikilvæg þáttaskil í íslenskri fjölmiðlun og rannsóknablaðamennsku.

Við erum ekki aðeins þrumu lostin þjóð, heldur ekki síður í augum okkar sjálfra og umheimsins ,, hnípin þjóð í vanda” eins og þjóðskáldið orðaði það.

…..

 

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT OG FLEIRA

Molavin skrifaði (02.04.2016):,,Það er leitt að þurfa að endurtaka ávirðingar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. En kannski er rétt að nefna bara nöfn, því þar virðist ekki tekið við almennum leiðbeiningum. Fyrirsögn fréttar (01.04.2016) á vefsíðu RUV segir: „Ferðamennskan ræni komandi kynslóðir landinu“ og fréttina skrifar Kristín Sigurðardóttir. Þessi fyrirsögn er skrifuð í viðtengingarhætti, þótt viðmælandinn, landgræðslustjóri, tali í framsöguhætti. En viðtengingarhátturinn breytir merkingu orða hans. Þannig hljómar þetta eins og ákall til ferðaþjónstunnar um að ræna landinu frá komandi kynslóðum. Anna Sigríður Þráinsdóttir er málfarsráðunautur og ætti að hafa tekið á þessum vaxandi vanda fyrir löngur. En megin ábyrgðina ber Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri.” Molavin bætir við:,, Í framhaldi af þessu: Reyndur fréttamaður ríkisútvarpsins, Ævar Örn Jósepsson skrifar frétt um bíl Frans Páfa og segir (02.04.2016) „Fíat Frans páfa seldur fyrir metfé.“ Orðið metfé þýðir ekki há upphæð heldur dýrgripur. Orðið kemur ekki fyrir í fréttinni, aðeins fyrirsögn á vefsíðunni, svo kannski er Ævar Örn saklaus.” Molaskrifari þakkar Molavinbréfið og þarfar ábendingar,sem sumar hafa hér verið nefndar áður. Molaskrifari gerir ekki mikið af því að nefna nöfn einstakra fréttamanna, og enn minna af því að breyta bréfum sem vinir Molanna skrifa.

 

EKKERT SVAR

Hér hefur stundum verið vikið að því hve auðveldlega stjórnmálamenn víkjast átölulaust undan því að svara spurningum fréttamanna í ljósvakaviðtölum. Spurningum er ekki fylgt eftir og maður fær á tilfinninguna að spyrillinn hafi alls ekki verið að hlusta á þann sem spurður var. Kannski verið með hugann við næstu spurningu.

Dæmi um þetta mátti sjá og heyra í upphafi Kastljóss á fimmtudagskvöld (31.03.2016). Vigdís Hauksdóttir alþingismaður, formaður fjárlaganefndar, var spurð um væntanlegt frumvarp Framsóknarmanna um að aflétta leynd af gögnunum um bankamál,einkum það sem fellur undir svo kallaða ,,110 ára reglu”sem virðist svo alls ekki vera til! Spyrill sagði efnislega: – Það liggur fyrir að í þessum gögnum, sem verið er að vísa í að það eru innanum upplýsingar um einkahagsmuni,en samkvæmt lögum er opinberum aðilum óheimilt að veita aðgang að þannig upplýsingum. Hvernig takið þið á því í þessu frumvarpi? Viljið þið að öll þessi gögn verði opinberuð eða viljið þið undanskilja hluta þeirra?

Skemmst er frá því að segja, að formaður fjárlaganefndar flutti fyrirfram saminn ræðustúf, en kom ekki nálægt því að svara því, sem um var spurt. Spurningunni var ekki fylgt eftir – ekki beðið um svar, þegar ljóst var, að þingmaðurinn hafði ekki einu sinni reynt að svara spurningunni. Við sem heima sátum vorum þess vegna engu nær.

 

ENGIN REISN

Rétt fyrir kvöldfréttir á föstudagskvöld (01.04.2016) var flutt í Ríkisútvarpinu súkkulaðiauglýsing, sem var að mestu leyti á ensku. Þetta stríðir gegn reglum Ríkisútvarpsins.

Skeytir auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hvorki um skömm né heiður?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Reynir Heiðberg Stefánsson skrifar:

    Viðtengingarháttur, já… Í fyrirsögnum ætti máske betur við að kalla hann heimtufrekjuhátt.

  2. Eiður skrifar:

    Þakka þetta Jón, – mér fannst þetta eitthvað undarlegt, en gleymdi að athuga það nánar.

  3. Jón skrifar:

    Í fréttum sjónvarps í kvöld var fjallað um viðbrögð erlendis við máli forsætisráðherra. Þar var m.a. Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar spurður um afsögn SDG. Í skrifaðri frétt um þetta er þýðingin, sem birtist á skjánum, skrifuð út:

    „En frá sjónarhóli Svía, þeirra viðhorfa sem eru ráðandi hér, þá þætti ótækt að flækjast í slík hneyklismál og þetta bendir til græðgi hjá hlutaðeigandi sem mér er svo sem ekki illa við,“ sagði Löfven orðrétt í viðtalinu við SVT.

    Þetta er hrein lygi, Löfven var að tala um Nordea-bankann og þá græðgi sem stofnun skúffufélaga sýndi og „som jag tycker genuint illa om“. Þetta verður í textanum „sem mér er svo sem ekki illa við“.

    Fyrir Framsókn er svona fölsun gefundenes fressen eða hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>