VEÐRUN ALMANNATRAUSTS
Lesandi benti Molaskrifara á þessa frétt á mbl.is (27.04.2016) og sagði, – ,,Hefði ekki verið betra að birta frumtextann. Þetta er óskiljanlegt”. Fréttina er rétt að birta í heild: ,, Lögreglustjórinn í Suður-Jórvíkurskíri í Bretlandi var leystur frá störfum í dag „í kjölfar aðdragana og útgáfu Hillsborough úrskurðarins“ hvers niðurstaða var að lögregla bæri hluta ábyrgðarinnar á slysinu á Hillsborough leikvanginum í Sheffield árið 1989 þar sem 96 áhangendur Liverpool létu lífið.
Lögreglumálastjóri Suður-Jórvíkurskíris, Alan Billings, sá kjörni fulltrúi sem fer með málefni lögreglunnar á svæðinu sagðist ekki hafa átt neinna annarra kosta völ en að leysa David Crompton frá störfum „á grunni veðrunar almannatrausts.“ Molaskrifari þakkar ábendinguna. Enginn fullorðinn á vaktinni? Molaskrifara varð á að hugsa: – Hvað hefði Matthías sagt?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/27/rekinn_vegna_hillsborough/
LÆRISVEINARNIR FRÁBÆRU
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi (25.04.2016): ,,Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu frábæran sigur gegn Spánarmeisturum Barcelona, 29:24, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistara- deildar Evrópu í handknattleik í gær. Það var boðið upp á frábæran leik í Sparkassen-höllinni þar sem Kiel hafði undirtökin nær allan tímann. Staðan eftir fyrri hálfleikinn var 16:12, Kiel í hag, en strákarnir hans Alfreðs léku frábæran varnarleik með danska landsliðsmarkvörðinn Niklas Landin í fantaformi á milli stanganna.
Ofangreind tilvitnun er úr íþróttasíðu Morgunblaðsins 25. apríl 2016, sem Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður, skrifar. Við þetta nafnorðastagl er hægt að gera nokkrar athugasemdir.
Leikmenn Kiel eru ekki lærisveinar þjálfarans, ekki frekar en Guðmundur er lærisveinn ritstjóra sinna. Á lærisveinum er þó klifað í mörgum íþróttafréttum Moggans og er þörf á að því linni enda röng notkun á orðinu.
Í öllum þessum þremum málsgreinum er klifað á að eitthvað hafi verið „frábært“. Svona suð nefnist nástaða og er ekki til fyrirmyndar.
Loks má nefna nafnorðastílinn. Fer ekki betur á því að skrifa að leikmenn verjist heldur en að leika varnarleik? Jú, vissulega þarf að hugsa betur um það sem er ætlunin að skrifa og taka sér tíma til að orða það betur. Vandinn er sá að margir blaðamenn, ekki bara íþróttafréttamenn, kunna ekki eða vita ekki hvernig hægt er að tjá hugsanir og viðburði á fjölbreyttan hátt.” Molaskrifari þakkar Sigurði þarfar ábendingar. Gott er að eiga góða að.
HANN ,HÚN EÐA HVAÐ?
Af mbl.is (25.04.2016) : ,, Viðkomandi æstist enn frekar við að fá ekki að fara með vélinni svo grípa varð til þess ráðs að flytja hana á lögreglustöð til vistunar þar til af honum bráði.” Þarna hefur fréttaskrifari eitthvað ruglast í ríminu! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/25/fekk_ekki_ad_fljuga_vegna_olvunar/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar