Einkennilega var til orða tekið í Fréttablaðinu (22.10.2009) þar sem sagt var frá jeppadekkjum sem eru framleidd í Kína. Þar var sagt að dekkin séu smíðuð í Kína. Mola skrifari á mjög erfitt að sjá fyrir sér hvernig dekk eru smíðuð. Hann hefur meira að segja heimsótt dekkjaverksmiðju í Kína. Þar voru engir smiðir að störfum, heldur verkamenn, sem mótuðu eða steyptu dekkin.
Úr Vefvísi (22.10.2009)… vegna 200 tonna netabáts sem er aflvana um 18 sjómílur vestan Skagastrandar,… Venja er undir slíkum kringumstæðum að tala um að bátur sé vélarvana eða með bilaða vél. Ekki aflvana. Í sömu frétt segir: Um 6-8 manns eru um borð. Ósköp er þetta klaufalega orðað. Um er þarna algjörlega ofaukið.
Meira úr Vefvísi. Úr frétt um slys í Kópavogi: Karlmaður slasaðist alvarlega þegar hann fékk bílskúrsdyr í höfuðið í morgun... Sá sem þetta skrifaði þekkir ekki muninn á dyrum og hurð. Dyr, eru eins og orðabókin segir: Inngangur í hús eða herbergi, oftast með umbúnaði svo hurð geti fallið fyrir. Rétt orðnotkun var hinsvegar í fyrirsögninni. Þar var talað um bílskúrshurð. Í þessari sömu frétt segir: Maðurinn gekkst undir aðgerð vegna meina sinna. Sá blaðamaður sem þessa frétt skrifaði þarf að setjast á skólabekk og læra móðurmálið betur. Hann veit ekki, að mein þýðir meinsemd eða sjúkdómur. Maðurinn sem slasaðist hlaut alvarlega áverka.
Enn meira úr Vefvísi sama dag. Verið var að fjalla um bruggara. Þar sagði: …og átt sérhæfð áhöld til að eima áfengi í byrjun sumars. Lögreglan lagði hald á áfengið, 5 hvítar tunnur og suðupott í húsnæði að Hraunbæ aðfararnótt 18 júní síðastliðinn. Sérhæfð áhöld til að eima áfengi heita eimingartæki og lok fréttarinnar ættu að vera svona: .. aðfaranótt 18. júní síðastliðins. Ekki aðfararnótt. Þegar hér var komið sögu, hafði Molaskrifari hreinlega ekki nennu til lesa meira í Vefvísi Menn sem umgangast móðurmálið svona, eiga ekki að ganga lausir þar sem lyklaborð eru innan seilingar.
Molaskrifari lagði það á sig á hlusta á morgunþátt Rásar tvö (23.10.2009) frá því fyrir klukkan sjö fram yfir átta fréttir.Fluttur var pistill um kvikmyndir og leikara vestanhafs. Textinn var óboðlegur hrærigrautur íslensku og ensku. Málgrautur, sem RÚv á ekki að bjóða okkur. Umsjónarmenn morgunþáttarins eru ekki vel talandi. Í viðtali töluðu oft báðir í senn, þannig að ekkert skildist. Þau Ögmundur Jónasson alþingismaður og fv. ráðherra og Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og bloggari voru eina fólkið sem kom við sögu í morgunútvarpinu sem var prýðilega máli farið. Hvorugt þeirra starfar hjá RÚV eins og flestir sjálfsagt vita.
Í þessum þætti var (23.10.2009) sagt:… í gærkveldi lenti á Keflavíkurflugvelli hæsti maður heims. Auðvitað lenti maðurinn ekki, þótt langur sé. Hann kom með flugvél , sem lenti á Keflavíkurflugvelli. Eðlilegt hefði verið að segja: Í gærkveldi kom til landsins… Síðan sagði annar þeirra, sem rætt var við,að maðurinn væri tveir metrar og 465 sentimetrar! Skyldi vera hætt að kenna grunnaskólanemum muninn á desimetrum, sentimetrum og millimetrum? Umsjónarmönnum datt ekki í hug að leiðrétta þetta. Seinna sagðist annar umsjónarmanna vera um 180 cm á hæð og þessi tyrkneski bóndasonur ( sem á alla mína samúð, því hann hlýtur að eiga erfiða ævi) væri því um það bil helmingi hærri en hann. Þá ætti hann að vera um 3 metrar og 60 cm. Meira ruglið.
Niðurstaðan og ráðlegging til dagskrárstjórnar RÚV er þessi: Skiptið um umsjónarmenn og breytið efnistökum.Hafið líka í huga, að umsjónarmenn þurfa að hafa góðar útvarpsraddir. Raddir útvarpsmanna mega ekki ekki vera rámar og fráhrindandi. Gerið þetta sem fyrst. Það er búið að gera tilraun. Hún heppnaðist ekki.
12 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Steini Briem skrifar:
25/10/2009 at 01:30 (UTC 0)
Þetta er spurning um aukningu.
Ef einhver á krónu (100 aura) og eignast svo 99 aura á hann 99% meira en í upphafi.
Ef hann eignaðist aftur á móti eina krónu í viðbót hefur eign hans aukist um 100% og hann á nú tvær krónur.
Eign hans hefur því tvöfaldast. Tvær krónur eru tvöfalt (tvisvar sinnum) meira en ein króna og þrjár krónur þrefalt meira.
Það er hins vegar málvenja að eitthvað sé helmingi meira en það var áður þegar aukningin er 100%. En sumir halda að þar sé átt við 50% aukningu og því er öruggast að segja að eitthvað hafi tvöfaldast þegar það eykst um 100%, til dæmis þegar rætt er um hagstærðir. Og hér á ég fyrst og fremst við upplýsingar sem gefnar eru í fjölmiðlum, þar sem mikilvægt er að ekkert fari á milli mála.
Eygló skrifar:
25/10/2009 at 01:21 (UTC 0)
Haukur Kristinsson, það er ekki nóg að eiga bók ef maður kann ekki að leita í henni. Búin að finna þetta og segi nú ekki meira.
Hitt er svo skyld saga að í fréttamiðlum er iðulega talað um vélarvana báta og skip á hinum eða þessum firðinum. Sussubía.
Haukur Kristinsson skrifar:
24/10/2009 at 21:30 (UTC 0)
Þegar ég gerði mína athugasemd við umfjöllun Eiðs um það, að eitthvað væri helmingi hærri, var ég ekki að leiðrétta hann, heldur nefndi þennan möguleika og var als ekki viss í minni sök. Því kom það mér á óvart hversu fljótur hann var að samþykkja hann.
Nú hefur Steini Briem flétt bókum um málið og það sama gerði ég. Í greininni Fimm sinnum fimm eru tuttugu, í bókinn Skynsamleg orð og skætingur eftir Helga Hálfdanarson (bls. 69) má lesa eftirfandi. Samkvæmt íslenskri málvenju hefur talan tuttugu verið sögð helmingi hærri en talan tíu, og tíu helmingi lægri tala en tuttugu. Þessi málvenja hefur víst aldrei valdið misskilningi; sá Íslendingur hefur verið vandfundinn, sem efast um, að helmingi hærri tala en tíu væri tuttugu, þangað til fyrir skömmu, að einhverjum reikningsmönnum kom í hug, að þetta myndi ekki vera rökrétt, hærri talan væri fimmtán, fyrst helmingur af tíu eru fimm. Og til þes að ráða hér bót á, var farið að vinna gegn málvenjum, og sú orðbeiting boðuð í staðinn, að tuttugu væri tveim (ef ekki tvisvar) sinnum hærri en tíu. Helgi skrifar meira um þetta mál, sem ég nenni ekki að endurprenta. Sem sagt, Eiður hafði rétt fyrir sér.
Haukur skrifar:
24/10/2009 at 21:26 (UTC 0)
Ég er mikill áhugamaður um tölulegar stærðar og málfar. Mín túlkun er því að helmingi meira sé vissulega 50% meira. Sem þýðir að ég nota ekki það orð til að valda síður ruglingi. Hið sama er með tvisvar sinnum meira. Tvisvar sinnum er auðvitað 200% og „meira“ er ofan á 100% þannig að niðurstaðan er 300% frá fyrra ástandi sem er 100%. Held að þetta sé vond afbökun úr dönskunni, to gange så meget, sem þýðir tvisvar sinnum það mikið, eða 100% meira. Ekki tvisvar sinnum meira. Því væri 200% í raun „einu sinni meira“. Sem þýðir að fæstir Íslendingar geta gert réttilega grein fyrir 200%, segja annað hvort helmingi (150%) eða tvisvar sinnum (300%) meira. Nota því iðulega „tvöfalt“ eins og að ef Tyrkinn hefði verið 360 cm, þá hefði verið rétt að segja, að hann hefði tvöfalda hæð á við fréttamanninn.
Steini Briem skrifar:
24/10/2009 at 20:44 (UTC 0)
„Helmingi stærri – hálfu stærri, 100% (50%) stærri.“
„Helmingi minni – 50% minni.“
Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.
Þar af leiðandi er best að segja að 360 séu tvöfalt eða tvisvar sinnum (100%) meira en 180.
Maður sem er sagður vera helmingi hærri en 180 sentímetra hár fréttamaður gæti verið annað hvort 270 eða 360 sentímetrar á hæð.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
24/10/2009 at 15:14 (UTC 0)
ES , Haukur, þetta með helminginn er auðvitað rétt hjá þér. Hugsunarvilla hjá mér.
Bið umsjónarmanna velvirðingar á þessu.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
24/10/2009 at 14:04 (UTC 0)
góðvinur, átti það að vera.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
24/10/2009 at 14:03 (UTC 0)
Haukur, kærar þakkir fyrir margar góðar ábendingar. En ég er ósammála þér um lendinguna,. Mér finnst ekkert að því ,er flugliði segir við farþega : Við lendum Keflavík eftir … Mér finnst hinsvegar ekki í lagi að segja: Hann lenti í Keflavík í gær, nema þá að viðkomandi hafi sjálfur flogið vélinni og lent henni.
Annars man ég alltaf ,er gókvinur minn, Björn heitinn Guðmundsson flugstjóri sagði við okkur farþega skömmu fyrir lendingu í Keflavík: Við lendum í Keflavík eftir um það bil 20 mínútur. Þar er eins og venjulega hífandi suðaustan rok og ausandi rigning! Björn var bara að segja okkur satt. Þetta var þegar farþegar urðu að ganga frá vélinni góðan spöl inn í gömlu flugstöðina
Haukur Kristinsson skrifar:
24/10/2009 at 11:26 (UTC 0)
Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs er merking orðsins vélvana; með bilaða vél, með of kraftlitla vél.
Vélarvana finnst ekki. Eygló, áttu ekki þessa orðabók? Vertu nú góð við þig og gefðu þér hana í jólagjöf. Góð gjöf.
Eygló skrifar:
24/10/2009 at 11:10 (UTC 0)
vélarvana eða vélvana. >>> „-vana“ finnst mér alltaf vera „án“.
Þannig finnst mér vélarvana bátur vera vélarlaus. Hvað finnst þér? Eða kannski frekar, hvernig ætli þetta eigi að vera?
Jóhanna Geirsdóttir skrifar:
24/10/2009 at 09:58 (UTC 0)
Barn sem fæddist í flugvél flýgur frítt
Flugfélagið AirAsia hefur ákveðið að gefa sveinsbarni
sem fæddist um borð í einni af flugvélum þess í vikunni
fríar flugferðir alla ævi.
Móðir þess sem einnig flýgur frítt með flugfélaginu
átti barnið í áætlunarflugi frá eyjunni Penang til Borneo á miðvikudag.
Haukur Kristinsson skrifar:
24/10/2009 at 08:25 (UTC 0)
Menn sem umgangast móðurmálið svona, eiga ekki að ganga lausir þar sem lyklaborð eru innan seilingar. Brilliant.
Mér finnst þú vera einum of strangur hvað varðar lendinguna í KEF. Fleirtölumyndin er nokkuð oft notuð; við lendum, we will be landing in few minutes.
Og svo er það þetta með helminginn. Helmingurinn af 180 sm er 90 sm. 180 + 90 eru 270, en umsjónarmaðurinn sagði um það bil.