Í morgunfréttum RÚV klukkan átta ( 03.11.2009) var þannig tekið til orða við upphaf og lok frétta: Þrýstingur vex á Karzai að deila með sér völdum. Fréttin var um stjórnmálaástandið í Afghanistan. Samkvæmt málkennd Molaskrifara er þessi setning ekki rétt. Tveir eða fleiri geta deilt með sér völdum. Einn maður deilir ekki með sér völdum.
Í Molum númer 188 var vikið að slettunni Tax Free sem tröllríður auglýsingum í vaxandi mæli. Þá var sagt ,að öll fyrirtækin við Korputorg hefðu auglýst Tax Free um helgina. Þar er þó rétt að undanskilja verslunina Pier. Rúmfatalagerinn auglýsti aftur á móti (01.11.2009) Tax Free af öllum vörum , – ekki í fyrsta skipti. En í sama auglýsingatíma var auglýsing frá fyrirtækinu Pier sem auglýsti: Vaskurinn af öllum vörum um helgina, bæði við Smáratorg og Korputorg. Skammstöfunin vaskur er löngu viðurkennd sem stytting á orðinu virðisaukaskattur. Það má deila um orðlagið í auglýsingunni en allavega er þetta stórum skárra. Er það annars ekki færeyski viðskiptajöfurinn , fyrrverandi beitingastrákurinn, sjóarinn og skipstjórinn Jakob á Dul sem á Pier ? Hann á reyndar Rúmfatalagerinn líka,sem í Færeyjum heitir Skemman. Þegar ég var þar, var móðir Jakobs að afgreiða í búðinni. Nú þarf Jakob að láta yfirmenn í Rúmfatalagernum útrýma þessari slettu.
Molaskrifari hlustaði á meiri hluta sunnudagsmorgunþáttar Rásar tvö (01.11.2009). Þar var ýmislegt áheyrilegt. Tónlistin var ekki öll að mínum smekk,en hvernig í ósköpunum ætti svo að vera? Umsjónarmaður hefur fína útvarpsrödd, og er prýðilega máli farin. Kynfræðingurinn sem fenginn var í þáttinn til að tala um eitthvað sem kallað er stefnumótamenning, sletti aftur á móti enskunni óspart. Það var hinsvegar óþarfi að segja okkur hlustendum á 20 mínútna fresti eða svo að við værum að hlusta á Sirrý á Rás tvö. Í svona þáttum eru mörkin milli þess, sem er fréttnæmt og verðugt umfjöllunar og þess sem eru hreinar auglýsingar, oft óljós. Þarna fannst Molaskrifara auglýsingarnar full fyrirferðarmiklar. Þessi þáttur var samt allt annars og betri en aulaflissið og kjánamasið, sem einkennir morgunþátt Rásar tvö á virkum dögum.
Umsjónarmaður morgunþáttar Rásar tvö (01.11.2009) fór rétt með á sunnudag er hún talaði um Karíbahaf. Fréttamaður í morgunfréttum RÚV klukkan sjö minnir mig, talaði hinsvegar um Karabíahaf sem er rangt heiti á íslensku á þessum hluta heims. Hélt að búið væri að uppræta þessa villu á öllum fréttastofum, en greinilega ekki hjá RÚV.
Í hádegisfréttum varð RÚV enn á í messunni ( svona rétt eftir sunnudagsmessuna.) Fréttaþulur sagði í efnisyfirliti við upphaf og aftur í lok frétta: Stjórnarformaður CCP líst vel á… Fréttin var um að gjaldeyrishöftum hefði verið aflétt að hluta. Þetta er grunnsskólamálfræði. Ég líst ekki vel á. Mér líst vel á. Þetta heyrir maður ótrúlega oft í Ríkisútvarpinu, sem á að standa vörð um tunguna.
Ef einhver döngun væri í yfirstjórn stofnunarinnar væru fréttamenn skikkaðir á skólabekk til að læra íslensku. Ekki síst hvaða föllum algengustu sagnir málsins stýra.
Smágetraun í lokin : Úr hvaða fjölmiðli er þessi setning: Starfsmaður í áfengisverksmiðju í Rússlandi tókst að rústa öllum vörulager verksmiðjunnar á nokkrum sekúndum. Þetta er úr Vefdv (02.11.2009)
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
03/11/2009 at 22:40 (UTC 0)
Þetta er rétt, Þorgeir, en hefur batnað frá fyrstu árum sjónvarpsins. Þá var þetta slæmt, – verra en nú að ég held.
Þorgeir Gunnarsson skrifar:
03/11/2009 at 16:05 (UTC 0)
Sæll Eiður og takk fyrir góða pistla.
Finnst þér ekki kominn tími til að vekja athygli á hvimleiðum enskuslettum útvarps- og sjónvarpsfólks þegar rætt er um; hljóðver, hljóðstofu, hljóðnema, upptökuvél og förðun svo eitthvað sé nefnt úr umhverfi þeirra en eins og allir heyra, sem eitthvað fylgjast með ljósvakafólki segir það nær alltaf; stúdíó, mækur, kamera og smink þegar þessi hugtök ber á góma,
baldvin berndsen skrifar:
03/11/2009 at 13:04 (UTC 0)
Ég er persónulega dálítið á móti Karíbahafinu því á mínum skólaárum hét það Karabískahafið. '' Caribbean '' er lýsingarorðsstofn og það er þess vegna sem mér finnst Karabíska réttara, en þetta er auðvitað smekksatriði. það sama á við um fólk frá Mexico, sem hétu mexikanar áður en heita nú Mexikóar. Smekksatriði. '' Kói '' finnst mér vera orðskrípi.
Kveðjur,
Baldvin