«

»

Molar um málfar og miðla 201

  Molaskrifari   fær ekki betur séð en allir þeir, sem heiðraðir voru á degi íslenskrar  tungu, séu vel að þeim heiðri komnir. Þorsteinn frá  Hamri er höfuðskáld, – þeir  Baggalútspiltar  stór góðir. Lagið við ljóð  Káins , Sólskinið í Dakota, eftir Braga  Valdimar Skúlason, í flutningi þeirra  heillaði  mig er ég er  heyrði það  fyrst  í Andrarímum. Þórbergssetrið hefur  Molahöfundur, því  miður enn ekki heimsótt. Færeyskur  rithöfundur,  vinur minn, eða vinmaður minn, eins og  Færeyingar  segja,   stansaði  þar í 4-5  klukkutíma á leiðinni  frá   Seyðisfirði  til Reykjavíkur á dögunum og lýsti þeirri heimsókn  ítarlega  fyrir mér  kvöldið áður en setrið hlaut þessa viðurkenningu. Hann er heillaður  af Þórbergi,- eins og fleiri.   

 

Það má eiginlega segja að í sameiningu hafi RÚV  og  Múrbúðin gefið íslenskri tungu  langt nef á  degi  tungunnar  með birtingu   afspyrnu vondrar  auglýsingar þar sem  talað er um að hakka og lakka verð. Á víst að vera fyndið. María Gunnarsdóttir vakti  athygli á þessari auglýsingu í  athugasemd  við síðustu Mola.  Enn eitt framlag  RÚV  til stuðnings móðurmálinu. Í  dagskrárkynningu RÚV  sjónvarps (16.11.29009) var talað um  mynd   þar sem   fólk  dettur út  í  tvær mínútur og   sautján  sekúndur. Dettur út  er   slangur  fyrir að  missa  meðvitund.

 

Það var lofsvert og afar vel til fundið  hjá Kastljósi RÚV að  flytja hið  fallega  ljóð Huldu,  Hver á sér  fegra  föðurland, á táknmáli í tilefni  dags íslenskra  tungu. Takk fyrir það.

 

Í fréttum Stöðvar tvö um manninn sem  skaut á útihurð í Breiðholti var sagt ( 16.11.2009) ..  hafði  sig á  bak og burt.  Þarna hefði  átt að  segja hafði sig   burt   eða var á bak og  burt.  Það er ekki hægt að tala um að hafa sig á bak og burt. Líka var sagt  í þessari frétt  að maðurinn hefði verið klæddur  lambhúshettu, – eðlilegra hefði verið að segja að hann verið með lambhúshettu..

 

Afleit fyrirsögn var á  Vefdv á  degi íslenskrar tungu (16.11.2009) Helga Kress: útgefandinn uppvís af meiðyrði. Í  fyrsta lagi verða menn uppvísir    einhverju, ef tiltekinn gjörningur sannast á þá. Í öðru lagi er orðið meiðyrði  yfirleitt notað í fleirtölu. Því ætti að standa  þarna  meiðyrðum. Annars er ekki heil brú í þessari fyrirsögn. Örugglega hefur  Helga Kress ekki orðað þetta svona.

Í  Vefdv  (16.11.2009) er  sagt  frá  bifreiðaárekstri á Akureyri með þessum  orðum:  Þarna varð árekstur með hvítri Kia Sportage bifreið og blárri Toyota Hiace sendibifreið. Eðlilegt  hefði verið að  segja:  Þar rákust  á…  eða  árekstur varð milli…   En auðvitað er gott að fá að  vita hvernig bílarnir voru á litinn! Í sama blaði er fjallað um byrjunarörðugleika hjá  versluninni Kosti. Áformað hafði verið að opna  verslunina klukkan  ellefu, en það seinkaðist um nokkra klukkutíma. Orðið seinkaðist er ekki til.   Réttara hefði verið að segja  … en því  seinkaði  um nokkra  klukkutíma.

   

Í  stundarkornshlustun á   Morgunútvarp Rásar tvö (17.11.2009) þrástagaðist annar umsjónarmanna á  orðinu  testa , sem er enskusletta ( e. test = prófa). Sá  hinn sami talaði um að fyrirtækið Íslensk  erfðagreining hefði unnið lengi  hér á landi.  Starfað lengi, hefði verið  betra.  Málfarsráðunautur RÚV þarf að taka   stjórnendur  morgunþáttarins  til  bæna.

  

Fréttin   um brottrekstur  Guðmundar Ólafssonar hagfræðings úr þáttum  Sigurðar G. Tómassonar  í Útvarpi Sögu staðfestir  það sem Molaskrifari hefur  sagt um þennan  fjölmiðil.  Merkilegt þykir mér þó, ef ágætismaðurinn  Sigurður G. Tómasson, lætur þetta yfir sig ganga.

   

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Hjalti skrifar:

    – Gaman að þessu…

    http://www.baggalutur.is/skrif.php?id=1679

    Takk fyrir pistlana Eiður.

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Þakka þér orðin ,Kjartan.

    Allt er það rétt sem þú segir ,Haraldur. Það er  starfandi málfarsráðunautur hjá RÚV. Hann á líklega við ofurefli að etja. Árna þekkti ég vel.  Hann var nágranni í Norðurmýri, kona hans Ágústa og faðir minn voru systkinabörn. Hann leiðbeindi mér svolítið   í setningafræði, – ég átti  erfitt með þá námsgrein í landsprófi.

    Rétt er það, Eygló, að málfar sumra þjóðkjörinna fulltrúa er skelfilegt. Þessar óþörfu  enskuslettur eru ömurlegt dæmi um það.

  3. Kjartan Magnússon skrifar:

    Eiður, ég færi þér þakkir mínar fyrir að standa vörð um málfar á Íslandi.

  4. Haraldur Bjarnason skrifar:

    Eiður, er einhver málfarsráðunautur starfandi hjá RÚV núna? Ef svo er, þá er hann ekki vel vakandi yfir því sem fer í loftið. Ég heyrði hádegisfréttum í gær fjallað um aflaverðmæti sjávarafurða. Þar voru verðmæti alltaf í eintölu. Ég man að Árni Bö. tók það skýrt fram við mig þegar ég var að byrja hjá RÚV að verðmæti væru í fleirtölu. Þetta tók hann sérstaklega fram við landsbyggðarfréttamanninn sem hann vissi að myndi fjalla mikið um sjávarútveg. Þá nefndi hann „hortitti“ sem hann vildi ekki heyra í útvarpi og þeirra á meðal voru aðili, aðstaða og magn. Allt orð sem eru ofnotuð og yfirleitt óþörf. 

  5. Eygló skrifar:

    … ekki gleyma, -sagt var.. hann var með lambhúshettu Á HÖFÐINU (eins gott!)

    Geta fyrirtæki og/eða stofnanir unnið eða starfað, -til lengri eða skemmri tíma?  Hélt að starfsfólkið gerði það.  Í mínum eyrum hljómar betur að fyrirtæki séu starfrækt eða rekin.

    VERÐ að koma því að… hlustaði á Þórunni Sveinbjarnardóttur (vona að ég nefni viðmælandann rétt) Þá einu mínútu sem ég var með kveikt á útvarpinu sagði hún:  (fjallað um 7 ára hlé til greiðslna inn á Icesave) „… við fengum þessa 'greis'(e. grace?)  …. sem við auðvitað borgum 'eventjúallí' …“
    Á svo erfitt með að líða forystufólki svona málfarsofbeldi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>