Á fréttavef RÚV segir (18.11.2009): Ísraelsstjórn heimilaði í gær byggingu 900 húseininga á hernumdu svæði í útjaðri austurhluta Jerúsalemborgar. Sama orðalag var í morgunfréttum. Hér hefur greinilega verið illa þýtt úr ensku þar sem talað hefur verið um housing units, það er að segja hús eða íbúðir. Á íslensku er orðið húseiningar notað um verksmiðjuframleidda húshluta úr tré eða steinsteypu. Þetta geta verið veggir ,stigar eða svalir. Hús sem gert er úr slíkum einingum hefur verið kallað einingahús. En að tala um byggja 900 húseiningar er enn ein aulaþýðingin úr ensku.
Í morgun fylgdi blöðunum inn um póstlúguna auglýsingablað frá BT. Þar stendur efst á forsíðu. Verslaðu jólagjafirnar í BT. Molaskrifari mun ekki kaupa eina einustu jólagjöf af fyrirtæki sem misþyrmir móðurmálinu með þessum hætti. Fróðlegt væri að vita hvaða auglýsingastofa hefur svona bögubósa á sínum snærum. Á baksíðu blaðsins stendur hinsvegar Verslaðu tímanlega – það borgar sig. Það er gott og gilt að taka þannig til orða.
Svo var tekið til orða í Vefmogga (18.11.2009) um sjómenn, sem lent höfðu í langvinnum hrakningum: ….en munu vera illa haldnir af næringarleysi. Málvenja er í slíkum tilvikum að tala frekar um hungur eða næringarskort, fremur en næringarleysi. Í frétt Vefdv um sama mál segir sama dag:.. Báturinn var eldsneytislaus og rak hann lengst út á haf. Hér hefði farið betur á á að segja: Báturinn varð eldsneytislaus og rak hann á haf út.
Í fréttum Stöðvar tvö (18.11.2009) var talað um að flytja erlendis. Þetta er ein af þeim fjölmiðlavillum sem heyrast aftur og aftur. Menn geta verið erlendis, en menn fara ekki erlendis né flytja erlendis. Menn flytja til útlanda eða fara til útlanda.
Fínt innslag í fréttum RÚV sjónvarps (18.11.2009) um Þríhnúkagíg. Það mun breyta miklu í ferðamennsku á suðvesturlandi ef þetta einstæða náttúrufyrirbæri verður gert aðgengilegt. Það ætti að gera sem fyrst.
Skildu eftir svar