«

»

Enn bregst Mogginn

 Þeir sem borga fyrir að fá Morgunblaðið heim til sín á morgnana eiga heimtingu á því að þar sé í fréttum  fjallað um menn og  málefni af heiðarleika og réttsýni.

Það var augljóslega mjög fréttnæmt er eignir fyrrverandi ráðuneytisstjóra  í fjármálaráðuneytinu, voru kyrrsettar. Það var  vegna þess að hann var grunaður um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar er hann seldi öll hlutabréf sín í  Landsbankanum  skömmu eftir að hann sem  embættismaður sat fund í London þar sem fjallað var um slæma  stöðu íslenska bankakerfisins. Verðmæti bréfanna mun hafa 127 milljónir króna.

Þetta varð Morgunblaðinu tilefni til að birta  örstuttan eindálk um málið  efst á  vinstri síðu, bls. 6 nánar tiltekið miðvikudaginn 18. nóvember.

 Í dag,  fimmtudaginn 19. nóvember annan  eindálk um málið , öllu lengri á bls. 2.  Þar  er Ólafur Þór  Hauksson, sérstakur saksóknari, fenginn til að neita því að  kyrrsetning  eigna Baldurs hafi  pöntuð niðurstaða.  Þetta er í samræmi  við hina frægu subbureglu í blaðamennsu  sem ættuð er frá  Bandaríkjunum og Nixon:  Látum þá  neita því(Let them deny it). Það er sem sagt verið að gefa í skyn að  stjórnvöld, væntanlega, hafi  krafist þess að saksóknarinn kyrrsetti eigur Baldurs.

Það bætist svo við að  hinir venjulega nafnlausu  Staksteinar  blaðsins eru  í dag  frá upphafi  til enda vörn fyrir Baldur Guðlaugsson, að vísu   er textinn að mestu tilvitnun í nafngreindan bloggara.En látum það nú vera. Staksteinar eru ekki fréttir, – miklu oftar nafnlaust níð um nafngreint fólk.

Sá sem þetta skrifar  hefur ekki hugmynd um sekt  eða  sakleysi Baldurs Guðlaugssonar  í umræddu máli. Hann krefst þess hinsvegar að Mogginn  geri sér  ekki mannamun í fréttaflutningi eins og hér er gert.

Það er engu  líkara en öll fagmennska í fréttaflutningi  hafi með nýjum ritstjórum   verið látin víkja,  send út í hafsauga. Það eru  vondar fréttir  fyrir lesendur blaðsins og illt hlýtur að vera fyrir vandaða blaðamenn  að búa  við slíka stjórn.

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurjón Vilhjálmsson skrifar:

    Sæll aftur Eiður.

    Ég varð var við það, en ég vil meina að ég hafi verið að svara téðum Steina í sömu mynt.  Hvers vegna það hvarf, en færzlur hans fá að standa, þar sem hann m.a. þykist vita eitthvað um greindarvísitölu mína og fleira mætti nefna, er mér hulin ráðgáta og finnst mér skrýtin ritstjórn, svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Þess vegna lét ég hafa eftir mér að það væri ekki sama Jón og Sigurjón…

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Hversvegna í ósköpunum ætti ég að stroka þessa kurteislegu athugasemd út, Sigurjón ? Hvarflar ekki að mér. Ég  hef  bara eytt  tveimur eða  þremur dónalegum athugasemdum um nafngreinda einstaklinga ,sem komu  færslu minni ekkert við.

    Takk fyrir að benda á klaufavilluna.

  3. Sigurjón Vilhjálmsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Í 3. línu 3. málsgreinar stendur ,,blaðamennsu“.  Enn ein klaufavillan.

    Það má svo líka benda á að það hefur ávallt verið upplýst og öllum það ljóst sem vilja vita að Staksteinar eru greinar eftir ritstjórn Morgunblaðsins.  Sú ritstjórn er ekki nafnlaus.

    Má ég svo eiga von á því að þessi færzla mín verði strokuð út vegna andstöðu við höfund?!  Eða mun Steini Briem koma með tilvitnanir úr lögum um að þetta og hitt sé bannað?

    Kveðjur úr austri, Sigurjón

  4. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Leiðrétting:

    Í lokalínu 2. mgr  vantar orðið verið – mun hafa verið.

    Í 1. línu 4 mgr. vantar orðin  birtir blaðið

    Klaufavillur, en flestir ættu að geta lesið í málið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>