«

»

Molar um málfar og miðla 208

  Eftir mikla leit fann hann loks móðir sína, en.. (visir.is 24.11.2009) Greinilegt er að slakað hefur verið á í íslenskukennslu  í grunnskólum landsins. Það var svo staðfest í fréttum Stöðvar tvö sama dag, þegar fréttamaður talaði um lögfræðing föðursins. Í  sama fréttatíma sagði fréttamaður: .. þegar hann kemst í leitirnar. Hann hefði átt að segja : Þegar hann kemur í leitirnar. Ég kemst ekki í leitirnar í haust, hefur allt aðra merkingu, eins og flestir vonandi vita.

   Þegar efni Kastljóss RÚV (24.11.2009) var kynnt í upphafi þáttarins, talaði kynnir um að björgunarafrek hefði verið framkvæmt. Afrek eru unnin , ekki framkvæmd. En kaflinn í Kastljósi um björgunarafrekið við Látrabjarg var fínn.

 

  Það var sögulegt ranghermi í Kastljósi, þegar Toppstöðin, eða varaflstöðin við Elliðaár var nefnd gamla rafstöðin við Elliðaár. Toppstöðin, ömurlega ljótt kassahús á þessum fallega stað,  var reist um eða upp úr 1948  fyrir Marshallfé. Hún var olíuknúin og henni var ætlað að koma til skjalanna, þegar orkunotkun væri hvað mest í Reykjavík. Kölluð Toppstöð af því að henni var ætlað að mæta  svokölluðum  orkutoppum. Gamla rafstöðin við Elliðaár er allt önnur bygging, annarsstaðar við árnar. Hún var tekin í notkun 1921 og hefur síðan malað gull. 

 Hefði ekki verið við hæfi að Síminn kynnti nýja markaðsherferð  á Degi íslenskrar tungu fyrr í þessum mánuði ?  Herferðin er farin undir orðinu ring, sem er ekki íslenska heldur enska. Síminn hefur af þessu lítinn sóma, en talsverða skömm hjá þeim sem unna móðurmálinu. 

Oft hefur hér verið amast við auglýsingum  sparisjóðsins Byrs um eitthvað sem þeir hafa kallað fjárhagslega heilsu. Vonandi er yfirstjórn sparisjóðsins við góða heilsu eftir húsleit og yfirheyrslur (24.11.2009).

 Morgunblaðið birti langa grein (24.11.2009) á besta stað í blaðinu, leiðaraopnunni, eftir Karl Axelsson , lögmann Baldurs Guðlaugssonar fv. ráðuneytisstjóra. Sérstakur saksóknari sendi frá sér yfirlýsingu vegna greinarinnar.  Molaskrifari  vænti  þess að yfirlýsing  saksóknarans mundi birtast á sama stað í blaðinu. Ég fann yfirlýsinguna ekki í Morgunblaðinu (25.11.2009) Það er vegna þess að hún er ekki í blaðinu. Hlýtur hún þó að hafa borist á ritstjórn Morgunblaðsins eins og hún barst öðrum miðlum.  Yfirlýsing sérstaks saksóknara hefur sennilega ekki verið ritstjórum Morgunblaðsins þóknanleg og því ekki birt. Fornaldarblaðamennska í þessum dúr er vísasta leiðin til að ganga af Morgunblaðinu dauðu. Sennilega tekst núverandi ritstjórum það á tiltölulega skömmum tíma, enda leggja þeir sig alla fram. Þeir keppast við  að breyta  Morgunblaðinu í íslenska Prövdu. 

 Í Morgunblaðinu (25.11.2009) er sagt frá slagsmálum á slysavarðstofu. Í fréttinni er þessi setning: Hann segir árásina hafa verið með öllu tilhæfulausa. Orðið tilhæfulaus, þýðir ósannur, rangur. Frétt er tilhæfulaus, ef ekki er fótur fyrir henni, ef hún styðst ekki við staðreyndir. Hér hefur blaðamaður  ruglað saman orðunum tilhæfulaus og tilefnislaus. sem er allt annað.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eygló skrifar:

    Jah, Ben.Ax. – Þegar þeir opna munninn, mættu þeir í leiðinni éta eitthvað af þessari vitleysu ofan í sig.

    Datt í hug þegar ég las „föðursins“ að ég hef heyrt þjóðsönginn „raulaðan“ skv.  ess-kerfinu (hvað sem það nú er 🙂 )

    Ó, guðs vors lands
    ó, lands vors guðs…

    Hmm? Er svolítið viðkvæm.

  2. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Sæll. Íslenskukennsla fer fram víðar en í grunnskólum landsins og má því ekki kenna þeim einum um ófarir tungunnar. Það er hins vegar áhyggjuefni hvað venjulegt fólk hrekkur oft við þegar fréttamenn opna á sér munninn til annars en að borða með honum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>