«

»

Molar um málfar og miðla 225

Í Bæjarmálum, málgagni Samfylkingarinnar í Garðabæ er svohljóðandi fyrirsögn á baksíðu (21.12.2009): Tvennir  flokksstjórnarfundir í Garðabæ. Sama orðalag er notað í fréttinni. Hér hefði átt að tala um tvo flokksstjórnarfundi. Ef um tónleika hefði verið að ræða hefði átt að tala um  um tvenna tónleika.  Tveir fundir. Tvennir tónleikar.

Úr dv.is (21.12.2009):Karen Rawlins óttaðist að snjóstormurinn… Snjóstormur er aulaþýðing úr ensku. Á íslensku segjum við stórhríð eða hríðarveður.
Málglöggur lesandi sendi Molum eftirfarandi: Á Pressunni má lesa frétt um fráfall ungrar leikkonu: „Hollywood leikkonan Brittany Murphy hafði verið með flensulík einkenni í nokkra daga áður en hún lést.“Einhver hefði látið nægja að kalla þetta flensueinkenni en sá sem sló á lykla hefur líklega ofþýtt „flu-like symptoms“.Þetta er hárrétt ábending. Og sá hinn sami bætti við: Fyrst maður er á annað borð byrjaður er eins gott að benda á fleiri dæmi um skrítið orðfæri. Í tengli Eyjunnar um frétt á Mbl.is um ófærð á vegum stendur: „Færð víða léleg.“ Þessu orðalagi á ég ekki að venjast.Molaskrifari á þessu ekki heldur að venjast. Færð getur verið, slæm, vond og það getur verið illfært. Hef aldrei heyrt þannig til orða tekin, að færðin sé léleg.

Í fréttum RÚV (22.12.2009) var talað um róttæka fækkun kjarnorkuvopna. Þessi notkun orðsins róttækur er Molaskrifari áður óþekkt. Venjulega er sá talinn róttækur sem vill breyta einhverju frá rótum, eða er lengst til  vinstri í litrófi stjórnmálanna.  Hér hefur örugglega verið þýtt úr ensku , en á ensku getur orðið radical  þýtt  grundvallar- eða djúptækur. Radical changes væru  því róttækar breytingar. Hæpið er að tala um róttæka fækkun.

 

Eftirfarandi setning er af fréttavefnum mbl.is (21.12.2009):  Bændamarkaður Frú Laugu opnaði í ágúst síðastliðnum við Laugarlæk í Reykjavík. Ekki er farið rétt með nafn götunnar. Hún heitir Laugalækur, ekki Laugarlækur. Þar er Laugalækjarskóli. Smáatriði, segir líklega einhver. En smáatriðin þurfa líka að vera rétt. Það eru raunar fleiri á sama máli og Molaskrifari, því Börkur Hrólfsson skrifaði eftirfarandi athugasemd við síðustu Mola:
„Það er þarft að vera á verði, til verndar íslenskunni. Það er fleira en málfarsvillur, sem þarf að gæta að. Það fer t.d. óskaplega í taugarnar á mér, þegar fólk fer rangt með staðarnöfn.

Í skjáfréttum MBL. er frétt um ,,Frú Laugu“ á Laugalæk, en þar kallar fréttakona götuna ,,Laugarlæk“ ,,Laugalækur“ var það heillin, þ.e. lækurinn úr laugunum.

Að minnsta kosti tvö fyrirtæki við Laugaveg, vita ekki hvað gatan þeirra heitir, og auglýsa sig við ,,Laugarveg“. Það eru Kós leðurvöruverslun, og austurlenskur veitingastaður á ,,Laugarvegi“ 60.
Laugavegur heitir svo, vegna þess að hann lá í laugarnar (í fleirtölu).
Eins sést æ oftar að Skógafoss er kallaður Skógarfoss, þetta hefur jafnvel verið prentað í ferðabæklinga og handbækur.
Þeir eru fleiri staðirnir, sem svo er farið með. Kannski er þetta bara eðlileg þróun, og ekkert við að gera, en þetta fer samt í taugarnar í mér.
Takk fyrir þetta , Börkur.

Það er auðvelt að blanda saman orðtökum. Prýðilega máli farinn veðurfræðingur í fréttum Skjás eins og mbl.is, sagði (21.12.2009) Þá lyftist á okkur risið. Málvenja er að segja, – það var ekki hátt á honum risið (eftir að hann kolféll á prófinu) , en  hinsvegar er sagt: Þá lyftist á mér brúnin, – þá glaðnaði yfir mér.

Í sjónvarpsfréttum RÚV (21.12.200) var talað um að verja fé til endurbyggingar skólalóða. Molaskrifari játar að hann veit ekki hvernig farið er að því að endurbyggja skólalóðir.

Það var prýðilega að orði komist í íþróttafréttum RÚV sjónvarps (21.1.2009) þegar sagt var frá konu sem hljóp 100 kílómetra á tíu klukkustundum á hlaupabretti og þannig tekið til orða að hún hefði hlaupið 100 kílómetra á einu bretti ! Gott mál.

Stöð tvö slær RÚV við á hverju einasta kveldi, þegar kemur að landsbyggðarfréttum.

Þetta eru síðustu Molarnir fyrir jól. Eftir áramótin verða Molar um málfar og miðla á vefsíðunni www.eidur.is, á fésbók og á vefritinu eyjan.is

Molaskrifari óskar öllum sem þetta lesa gleðilegra jóla og gæfuríks árs , um leið og þakkaðar eru góðar undirtektir við það sem sagt hefur verið í þessum pistlum á árinu sem senn er liðið.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Björn Baldursson skrifar:

    Sæll og gleðilega hátíð, Eiður.
    Í Molum nr. 225 var eins og þú hefðir byrjað að finna að skrifum um frú Laugu en síðan hætt því. Bændamarkaðurinn opnaði ekkert, hann var opnaður. Og ef við eigum að vera smámunasamir af hverju er stórt F í frú Laugu?
    Vonandi kemst þetta til skila. Ég reyndi eitt sinn að senda þér línu meðan þú varst á moggablogginu en skrifin voru stöðvuð. Veistu hve margir hafa sagt upp áskrift þar síðan nýr ritstjóri tók til starfa?

    Kveðja,
    Björn Baldursson

  2. Bjarni Dagur skrifar:

    Sæll Eiður Svanberg.

    Fagna því að þú hefur byggt upp þitt eigið vefsvæði óháð Moggavefnum.
    Ég les af athygli allar þínar færslur og hef gaman af því hve fundvís þú ert á galla í ritmáli og töluðu máli í fjölmiðlum. Margt má þar betur fara. Þu ættir kannski við tækifæri að rifja það upp og segja frá málvöndun Séra Emil í sjónvarpinu á árum áður. Hann las yfir alla texta og skrifaði ofaní og strikaði yfir.. ekki satt ! Það er ekki ástundað hér á RUV eða Stöð2. Það getur eiginlega ekki verið vegna þess hversu mikið af málvillum ratar alla leið í útsendingu.

    Nefndir Lauga(r)veginn. Hæsti tindur landsinns hefur endinguna hnúkur, ekki hnjúkur… svo ég nefni það sem ég man núna.

    Jólakveðjur bdj

  3. Bjarni Dagur skrifar:

    Sæll Eiður Svanberg.

    Fagna því að þú hefur byggt upp þitt eigið vefsvæði óháð Moggavefnum.
    Ég les af athygli allar þínar færslur og hef gaman af því hve fundvís þú ert á galla í ritmáli og töluðu máli í fjölmiðlum. Margt má þar betur fara. Þu ættir kannski við tækifæri að rifja það upp og segja frá málvöndun Séra Emil í sjónvarðpinu á árum áður. Hann las yfir alla texta og skrifaði ofaní og strikaði yfir.. ekki satt ! Það er ekki ástundað hér á RUV eða Stöð2. Það getur eiginlega ekki verið vegna þess hversu mikið af málvillum ratar alla leið í útsendingu.

    Nefndir Lauga(r)veginn. Hæsti tindur landsinns hefur endinguna hnúkur, ekki hnjúkur… svo ég nefni það sem ég man núna.

    Jólakveðjur bdj

  4. Bjarni Dagur skrifar:

    Sæll Eiður Svanberg.

    Fagna því að þú hefur byggt ypp þitt eigið vefsvæði óháð Moggavefnum.
    Ég les af athygli allar þínar færslur og hef gaman af því hve fundvís þú ert á galla í ritmáli og töluðu máli í fjölmiðlum. Margt má þar betur fara. Þu ættir kannski við tækifæri að rifja það upp og segja frá málvöndun Séra Emil í sjónvarðpinu á árum áður. Hann las yfir alla texta og skrifaði ofaní og strikaði yfir.. ekki satt ! Það er ekki ástundað hér á RUV eða Stöð2. Það getur eiginlega ekki verið vegna þess hversu mikið af málvillum ratar alla leið í útsendingu.

    Nefndir Lauga(r)veginn. Hæsti tindur landsinns hefur endinguna hnúkur, ekki hnjúkur… svo ég nefni það sem ég man núna.

    Jólakveðjur bdj

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>