«

»

Molar um málfar og miðla 239

Í ferðamálariti las Molaskrifari um sveitaveg  ,sem  sagður var kræklóttur. Fannst þetta einkennilega til orða tekið , hafði ekki heyrt orðið kræklóttur notað, nema um tré.  En orðabókin segir:  Kræklóttur, – margboginn ,hlykkjóttur. Svo lengi lærir sem lifir.

Oft er ruglað saman forsetningunum af og að . Það henti Jónas Kristjánsson í bloggi hans (16.01.2010) er hann sagði: .. en megn skítalykt er Hermanni Sæmundssyni ,sem segist hafa unnið  skítverkið  fyrir ráðherrann. Líklegast er þetta innsláttarvilla hjá JK  svo  Molaskrifari sýni velvild. Það er lykt af einhverju eða eitthvað lyktar vel eða illa eftir atvikum. Það getur aldrei verið lykt að einu eða neinu.

 Molaskrifari las auglýsingu  um mann sem væri  „viðurkenndur  ristilskolari”. Er þetta orðin viðurkennd  atvinnugrein á Íslandi ? Hve lengi ætla heilbrigðisyfirvöld að láta það viðgangast að almenningur sé féflettur  með   þessum skottulækningum ? Það léttist ekkert nema budda þolendanna  í þessu svo kallaða    „detox”  eða afeitrunarrugli.

Molavinur sendi eftirfarandi:

„Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, skrifar frétt í DV í dag þar sem hann gagnrýnir fréttaskrif DV um útibússtjóra Landsbankans í London, Baldvin Valtýsson. Páll skrifar: „Að stía Baldvin saman við Icesave og uppnefna hann „Icesave-stjóra“ er þannig kolrangt og í hæsta máta ósanngjarnt.“

Ég kannast við orðatiltækið að stía einhverjum í sundur í merkingunni að aðskilja. Að stía einhverju saman kannast ég þó ekki við og finn engin dæmi í uppflettiritum. Líklega er Páll að rugla saman sögninni að stía og spyrða eitthvað saman, sem merkir að tengja.

Páll hefði að vísu getað sagt, að það væri ósanngjarnt að setja Baldvin í sömu stíu og Icesave; það hefði verið snjöll líking, enda Icesave-málið afleiðing af svínaríi  fjárglæframanna”.

Kærar þakkir fyrir þetta.  Að stía í sundur er myndræn og gegnsæ  lýsing á því að aðskilja  eitthvað eða einhverja. Sama  gildir um að spyrða saman , þótt  sjálfsagt fari þeim fækkandi sem  vita hvað fiskspyrða er.  

Takk fyrir , Ingólfur Bjarni Sigfússon, að tala um  Stjórnarráðshúsið  ( ekki stjórnarráðið) í sjónvarpsfréttum RÚV (18.01.2010).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>