«

»

Molar um málfar og miðla 243

Margt er  Ríkisútvarpinu mótdrægt um þessar mundir. Langvinn  og neikvæð umræða um ofurlaun og hlunnindi á tímum aðhalds og sparnaðar í samfélaginu og  nú koma uppsagnir  og  góðir þættir eru skornir við trog. Það er einkennilegt að horfa upp á að  góðu og  reyndu  fólki skuli sagt upp, en aðrir sem  betur væru fallnir til annarra starfa halda  vinnunni. Það hvarflar að manni að stundum geti útlit ráðið meiru en atgervi.

 Öndvegis þáttur    eins og  Andrarímur  Guðmundar  Andra Thorssonar á að sögn að fjúka, en svokallaður og sannkallaður „slúðurfréttaritari” stofnunarinnar  á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna heldur sjálfsagt  sínu starfi. og  dælir  vikulegu rugli yfir þjóðina  Þetta  er að  rækja menningarhlutverk  RÚV.   Í morgun (22.01.2010) heyrðum við gullmolana  að eitthvað væri „ voða höss, höss” og „henni langar”.  Þetta er  nú aldeilis  forgangsröðun,sem  segir sex.  En hvar er niðurskurðurinn hjá   hinni valdamiklu og þurftafreku íþróttadeild?  Molaskrifari  saknar þess að ekki skuli minnst á hann.

Í tilkynningu  RÚV   um niðurskurðinn kemur  hinn margumtalaði ársgrundvöllur  við  sögu. Það  hefði verið  rétt að  biðja  málfarsráðunautinn   að lesa tilkynninguna yfir áður en  hún var  birt.

 Það var löngu tímabært eins og   bent hefur verið á í Molum að leggja  niður dagskrárkynningar   sem hafa verið óbreyttar frá upphafi. Þetta er sagt með  fullri virðingu  fyrir  þeim sem  þessar kynningar hafa haft með höndum. Þetta  var orðin  tímaskekkja. Kostnaður sem átti að vera  búið að  skera niður  fyrir löngu.

Þegar seint og um síðir í fréttatíma RÚV  sjónvarps (22.01.2010) var sagt frá niðurskurðinum þurfti  endilega að  nota   amböguna:  … samkvæmt útvarpsstjóra.  Hversvegna ekki : … eins og útvarpsstjóri  sagði, eða   svo vitnað sé til orða útvarpsstjóra…

 Úr frétt mbl.is um niðurskurðinn hjá RÚV (22.01.2010): Þá kemur fram að ýmsum þáttum, bæði í útvarpi og sjónvarpi, verði lagðir af. Hér  ætti að  standa: Þá kemur  fram að ýmsir þættir…..verði lagðir af.

Auglýsingar Símans í auglýsingaherferðinni  sem Síminn kallar Ring  eru ámælisverðar. Ring er ekki íslenska. Ring er enska, bæði nafnorð og  sagnorð  en aðalmerking  sagnarinnar er ekki að hringja í síma.  Orðið ringjarar er ekki til í íslensku Af hverju  þarf enn eitt íslenska fyrirtækið að sletta á okkur ensku og  leitast  við að spilla íslenskri  tungu ?  Það var einstakt að við skyldum ekki eins og  grannþjóðirnar taka upp  einhverja mynd af erlenda orðinu  telefon heldur  nota  íslenska orðið  sími,sem þýðir  þráður. Ólafur   Hansson  sögukennari  sagði okkur  í sjötta bekk   í MR  fyrir  rúmlega hálfri öld að   aðeins  eitt  annað  tungumál   hefði  svipað orð  yfir þetta tól. Það  væri  swahili, þar sem orðið  simu  þýddi  sími. Þetta sannreyndi ég seinna í  Tanzaníu. Á netinu fann ég að símastaur heitir á  swahili: mti wa simu. Ólafur var okkur nemendum  ómetanlegur  viskubrunnur og einstakur fræðari.

 Í þessari auglýsingu   Símans  segir  líka:  Við sendum þér  tóninn beint í símann. Vita  stjórnendur  Símans  ekki að á  íslensku    er  talað um að senda einhverjum tóninn,  þegar verið  er skamma hann. Ætlar Síminn að hringja í viðskiptavini sína og skamma þá, senda þeim tóninn? Rugl er þetta.   Molaskrifari veit  hinsvegar að stundum er ástæða  til að senda  Símanum tóninn vegna lélegrar þjónustu. : „Þú ert númer  þrjátíu og átta í röðinni”. Þarf að segja fleira?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>