«

»

Molar um málfar og miðla 244

Ekki þykist Molaskrifari vera nein tepra. Hann á  hinsvegar erfitt með að átta sig  á því hvaða erindi klámbrandarar að hálfu  á ensku eiga í dagskrá Morgunvaktar Rásar tvö á  RÚV.

Molaskrifara fannst vel að orði komist í mbl.is  er sagt var frá því að þotan,sem nauðlenti svo giftusamlega á Hudsonfljóti við New York,  væri  til sölu. Á mbl.is  segir um flugstjórann:  Hann sýndi fádæma flugfimi og lenti vélinni á ísköldu fljótinu. Molaskrifara þykir   orðið  flugfimi gott. En hinsvegar  er orðinu ískuldi ofaukið.

 Það er ekki eðlilegt orðalag, sem lesa mátti á  eyjan.is (22.01.2010) , að dagskrá  sé  skorin  verulega við nögl.  Eðlilegra  væri að segja að fé  til dagskrárgerðar  sé nú skorið við nögl.

Það var einkar ósmekklega og óheppilega að orði komist í  frétt um harmleikinn á Haiti í fréttum Stöðvar  tvö (22.01.2010) þegar  fjallað var um fjöldagreftrun látinna  og  efnilsega sagt að um 70 þúsund lík hefðu verið  afgreidd. Það er ekki hægt að tala um að  afgreiða lík.

Úr mbl.is (23.01.2010): Hún býður sig ein fram í fyrsta sætið, en fimm keppast um annað sætið.Eðlilegra hefði verið að segja:.. en fimm keppa um annað sætið.

Þrautseig er þolmyndaráráttan. Í fréttum RÚV  (24.01.2010) var sagt um sprengjuleitartæki,sem talið er vita gagnslaust: Þá hefur útflutningur þess verið gerður  ólöglegur af breskum yfirvöldum.  Þetta er heldur klaufalega að orði komist. Betra  hefði verið: Þá hafa bresk yfirvöld bannað útflutning tækisins.

Verðlistinn og Ormsson frá hrós  fyrir auglýsingar þar sem talað er um hagstætt verð og gott  verð.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Viskíprestur skrifar:

    Hér færðu eitthvað að moða úr…
    http://eyjan.is/blog/2010/01/25/avatar-skytur-titanic-a-kaf-james-cameron-hlaer-alla-leid-i-bankann-odru-sinni/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>