„Svona gera menn ekki“, sagði Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra úr ræðustóli á Alþingi. Setningin varð samstundis fleyg. Mig minnir að umræðan hafi verið um skattlagningu launa blaðburðarbarna, – upphæðir sem skiptu ríkið litlu en börnin miklu.
Sá sem þetta skrifar gerir ævinlega athugasemd, þegar hann sér heilbrigt fólk leggja í stæði, sem eru sérmerkt fötluðum, og þar sem þeir einir mega leggja, sem hafa til þess sérstakt leyfi, sem skal vera sýnilegt við framrúðu bifreiðarinnar. Þessum athugasemdum mínum hefur oftast verið illa tekið. Í einu tilviki svo illa að það er ekki til frásagnar,
Það er sérstaklega áberandi hvernig þessi stæði eru misnotuð við stórmarkaði eins og til dæmis Hagkaup í Garðabæ. Betra eftirlit þarf að hafa með því að reglum um þessi mál sé fylgt. Annað sem er líka áberandi það er hve lélegir til fótanna sumir stórjeppaeigendur eru. Nær undantekningarlaus er bílum lagt upp á gangstíginn sem ætlaður er gangandi fólki með innkaupakerrur á leið út á bíla stæðið. Oftar en ekki eru það ökumenn torfærujeppa,sem nenna ekki að ganga smáspöl af bílastæðinu að búðardyrum.
Þessar myndir voru teknar við Hagkaup í Garðabæ um síðustu helgi. Athyglisvert var samtalið við ökumann Nissan bifreiðarinnar. Þegar ég mundaði myndavélina spurði hann hann hvort ég væri eitthvað lasinn. Ég benti honum á að hann hefði lagt í stæði fyrir fatlaða. Þá sagði hann þessa eftirminnilegu setningu:„ Ég er ekkert lagður (svo!) hérna, ég er bara bíða eftir konunni”. Nenni ekki að rekja samtalið frekar. En, það sem upp úr stendur er: „Svona gera menn ekki”.
Skildu eftir svar