«

»

Molar um málfar og miðla 246

 Í  sjónvarpsfréttum  RÚV (25.01.20210) var sagt um álverið í Straumsvík:…það rafmagn sem fyrirtækið hafði tryggt sér  hefur verið  beint annað. Rafmagnið hefur ekki verið beint annað, heldur hefur rafmagninu verið beint  annað.  Í  fréttum  sama miðils, sama kvöld,  af frosthörkum í  Rúmeníu var sagt… hefur á annan tug manna  orðið úti. Málkennd  Molaskrifara er sú ,að hér   hefði átt að  segja hefur  á  annar tugur manna orðið úti. Einhver verður úti.  Þessi skoðun Molaskrifara kann þó að orka tvímælis. Gaman væri að heyra álit annarra.

 Smáfrétt  í DV  (25.01.2010) vakti athygli Molaskrifara. Fyrirsögnin var:„ Lottóvinningur í óskilum “. Þar var frá því greint  að lottóspilari sem keypti miða 9. janúar hefði enn ekki sótt vinning sinn , nálægt  fimm milljónum króna.  Molaskrifari bjó í fimm ár í Noregi og  keypti þá einstaka sinnum  lottómiða. Þar  komast allir vinningar  til skila. Það er vegna þess, að þegar  lottómiði er keyptur  fyrsta sinni, fær kaupandinn  spjald á  stærð  við bankakort, sem hann sýnir  síðan í hvert skipti  sem hann kaupir miða. Þannig er tryggt að hann  fær sinn vinning, þótt hann ekki fylgist með  þegar dregið er . 

 Þetta er eitt  af því  sem verður að breyta, þegar lög um talnagetraunir  verða   endurskoðuð, en það hlýtur að gerast fljótlega.   Nú hefur sá sem vann gefið sig fram  og væntanlega sótt sinn vinning. En það er  engu líkara en hér á landi sé legið á því lúalaginu að vonast til þess að vinningar verði ekki sóttir. Það á ekki að líðast. Þetta  er ein af mörgum röksemdum fyrir endurskoðun núverandi kerfis.

 Bjarni Sigtryggsson,sendi Molum eftirfarandi  hugleiðingu: „Það er skrítin tilhneiging fjölmargra að halda að heiti eða hugtök fái eitthvað fínni, merkilegri eða virðulegri merkingu með því að velja þeim óljós orð; einskonar jólapappír utan um venjulega merkingu. Á sínum tíma var hætt að auglýsa eftir sölumönnum en þess í stað auglýst eftir “markaðsfulltrúum” Það hljómaði fínna. Nú eru fyrirtæki í eigu bankanna ekki seld, heldur fara þau “í söluferli”. Verst er að meðal þeirra glysgjörnu í meðferð málsins eru allmargir blaðamenn, og reyndar telja sumir þeirra  fínna að kalla sig “fjölmiðlamenn.”

ps. Í frétt vísis punktur is í dag er sagt frá ummælum manns í útvarpsþættinum „Sprengjusandi.” Skyldi landafræðikennslu grunnskóla hafa hrakað til jafns við móðurmálskennslu?”

  Þakkir fyrir þetta, Bjarni.  Öruggt má telja  að landafræðikennslan hafi ekki tekið  framförum. Kennsla  í landafræði ætti að  vera hluti námsefnis allra þeirra sem stefna  að störfum við blaðamennsku

→ Rita ummæli

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>