«

»

Molar um málfar og miðla 247

Sú árátta helst í fréttum flestra miðla að segja: …samkvæmt þessum og samkvæmt hinum. Í fréttum Stöðvar tvö (26.01.2010) var sagt: … frestun kosningadags á samkvæmt Steingrími ekki að hafa….. Þessi tískuambaga breiðist hratt út og heyrðist einnig í hádegisfréttum RÚV (29.01.2010) þegar vitnað var til orða forstjóra Íslandspósts og sagt: Samkvæmt Ingimundi, enskan skín í gegn. Hversvegna ekki að segja: Að sögn Ingimundar, eða Ingimundur sagði? Þetta er að mati Molaskrifara ekki gott mál. Aðrir geta verið verið á öndverðum meiði við Molaskrifara um þetta efni.

Norska staðarnafnið Bærum, kom við sögu í fréttum RÚV sjónvarps (26.01.2010). Bæði fréttaþulur og fréttamaður báru þetta fram eftir rithætti , með æ- hljóði, sem er rangt. Þeir þurftu ekki að leita langt yfir skammt eftir réttum upplýsingum um framburð þessa norska orðs. Þeir hefðu getað spurt Þóru Tómasdóttur sem hefði leitt þá í allan sannleika um framburðinn, Það eru meira segja ekki allir Norðmenn ,sem segja Bærum jafn fallega og Þóra. En, kannski var þetta útilokað. Það er nefnilega búið að reka Þóru Tómadóttur , einn frambærilegasta fréttamann Kastljóssins. Undarleg röðun ríkti varðandi brottrekstur reyndra fréttamanna.

Það var líka skondið hér á dögunum á Morgunvakt Rásar tvö að heyra umsjónarmenn klæmast á framburði enska orðins Gloucestershire. Annar þeirra náði loks að leiðrétta hinn og bera þetta rétt fram. Þetta er eitt af þeim orðum sem góðir enskukennarar, kenna nemendum sínum hvernig bera skuli fram,s em vissulega er ekki auðvelt. – \ˈgläs-tər-ˌshir, -shər, ˈ Réttur framburður er auðfundinn á netinu, ef menn nenna að leita.

Kvótakóngur og þingmaður af Snæfellsnesi fór mjög halloka fyrir Helga Seljan í samtali þeirra í Kastljósi (26.01.2010). Hann neyddist til að endurgreiða 20 milljónir eftir að málið komst í hámæli. Sá hinn sami greiddi atkvæði gegn strandveiðum , en veiddi samt.

Illt þykir Molaskrifara að þar vestra skuli vafasömum aðilum verið seld vatnsréttindi til 95 ára ! Þarna er verið að binda hendur óborinna kynslóða. Þótt þingmanninum hafi í Kastljósi orðið á að segja: Ég vill.. getur Molaskrifari vottað ,sem gamall þingmaður Vestlendinga, að slíkt orðalag heyrir til undantekninga fyrir vestan.

Í dagskrárkynningu RÚV sjónvarps (26.012.2010) var sagt: …. Dóttir þeirra verður meistari í að stafa orð… Að stafa orð heitir stafsetning á íslensku

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>