«

»

Molar um málfar og miðla 269

Bjartsýnn var Molaskrifari á að fréttamönnum tækist að tala rétt um það hvenær kjörstaðir væru opnar og hvenær þeim væri lokað í þjóðaratkvæðagreiðslunni a laugardaginn var. Bjartsýnn þar til hann hann heyrði þrautreyndan fréttamann á Stöð tvö segja (06.03.2010): Kjörstöðum lokar klukkan tíu í kvöld. Kjörstöðum lokar ekki, kjörstöðum var lokað klukka tíu um kvöldið.

Útsvarsstjarna sigrar prófkjör,segir í fyrirsögn á pressan.is (06.032.10). Menn sigra ekki prófkjör, menn sigra í prófkjöri. Menn sigra ekki keppni. Menn sigra í leik. Sá sem þetta hefur skrifað, er ekki slyngur í réttri notkun móðurmálsins.

Í fréttum Stöðvar tvö var nýlega talað um að bera hitann og þungann í málinu. Þetta er ekki rétt notkun þessa orðtaks. Talað er um að einhver beri hitann og þungann af einhverju, þegar sá sem um er rætt, er sá sem mest mæðir á.

Jónas Kristjánsson, jonas.is , tvískrifar orðið þátttaka með t- um í bloggi sínu (06.03.2010). Pennaglöp. Jónas veit auðvitað betur.

Í RÚV (06.03.2010) ,líklega í Gettu betur, var talað um útgerðarbónda. Betra or væri , – útvegsbóndi. Gamalt og gott orð. Guðmundur Jónsson á Rafnkelsstöðum í Garði minn fyrsti vinnuveitandi, er ég var sjö ára, var útvegsbóndi. Hafði kýr í fjósi , báta á sjó og saltfisk á stakkstæði, eða reit.

Við erum með verulegan sneisafullan pakka í dag, sagði íþróttafréttamaður RÚV (06.03.2010) Þetta er á margan hátt óæskilegt orðalag. „Pakkinn“, sem hann talar um er líklega íþróttafréttatíminn. hann getur auðvitað verið sneisafullur, en aldrei verulega sneisafulllur !

Í spurningaþætti RÚV sjónvarps (06.03.2010) var birt mynd af höggmynd Einars Jónssonar og sagt að hún héti Útlagar. Molaskrifari hefur alltaf staðið í þeirri trú, að myndin héti Útlaginn. En rétt er það hjá RÚV að myndin heitir Útlagar. Eins gott að vera ekki of fljótur á sér.

Þegar brotsjóir riðu yfir farþegaskip á Miðjarðarhafi og tveir farþegar biðu bana var sagt á í einhverjum miðlinum, að manntjón hefði orðið í öldugangi ! Klaufalega orðað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>