«

»

Molar um málfar og miðla 279

Mikið var gaman að hlusta á Alexander Ómar Breiðfjörð Kristjánsson , níu ára listamann frá Grund, skammt frá Selfossi, í Kastljósi (30.03.2010). Ef allir fjölmiðlamenn væru jafnvel máli farnir og þessi níu ára drengur, hefði Molaskrifari fátt um að skrifa. Gerinilegt er, að alla ævi þessa drengs hefur verið talað við hann eins og fullorðinn. Þannig á einmitt að tala við börn. Ótrúlegur strákur. Við eigum örugglega eftir að heyra meira af honum síðar.

Clinton til varnar Íslandi, sagði á vef RÚV (30.03.2010) og í yfirliti hádegisfrétta RÚV þennan sama dag sagði, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefði skammað Kanadamenn fyrir að bjóða ekki Íslendingum til fundar, en á fundinum fjölluðu nokkur ríki Norðurskautsráðsins um málefni norðurslóða. Kanada boðaði til fundarins. Hið rétta er, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna gagnrýndi Kanadamenn fyrir að bjóða ekki Finnlandi ,Íslandi og Svíþjóð til fundarins. Það var heimalningslegt, hvernig Ríkisútvarpið sagði frá þessu. Ekki fagleg vinnubrögð.

Það voru heldur ekki fagleg vinnubrögð, þegar í þessum sama fréttatíma RÚV var flutt gagnrýni doktors í líffræði á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um hvalveiðar. Þess var svo getið í framhjáhlaupi síðar, að maðurinn væri í stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem opinberlega hafa gagnrýnt skýrsluna. Það átti að segja strax. Morgunblaðið hafði annan hátt á. Það kynnti manninn, sem stjórnarmann í Náttúruverndarsamtökum Íslands og sagði hann hafa sett gagnrýnina fram á heimasíðu samtakanna. Óvönduð vinnubrögð, sem gefa hlustendum ranga mynd af því sem um er fjallað.

Í Kastljósi (30.03.2010) talaði fréttamaður um grasþúfu. Það fannst Molaskrifara einkennilegt orðalag. Í sama Kastljósi var sagt, að einhver hefði gert eitthvað upp á sitt einsdæmi. Einsdæmi er einstæður atburður. En þegar menn gera eitthvað upp á sitt eindæmi, þá gera menn eitthvað á eigin ábyrgð eða að eigin frumkvæði. Á þessu reginmunur.

Raun var að hlusta á fréttamann RÚV stunda trúboð gegn álverum í Morgunútvarpi Rásar tvö (31.03.2010). Fréttamaðurinn endurtók rangfærslur,sem Jónas Kristjánsson hafði látið sér um munn fara á sama vettvangi daginn áður. Smári Geirsson svaraði með staðreyndum. Jónas hittir oft naglann á höfuðið í skrifum sínum. En hann verður að virða þá grundvallarreglu blaðamanna að halda sig við staðreyndir. Ekki segja að í álverinu á Reyðarfirði vinni 200 manns ,þegar starfsmenn þar eru 480. Fleira fór Jónas rangt með. Það tekur enginn mark á þeim sem hafa rangt við með þessum hætti. Þetta er brot á grundvallar reglu blaðamennsku.

Á vef Ríkisútvarpsins er viðtalið við Smára Geirsson kynnt undir fyrirsögninni: Áldraumar verkalýðsrekenda.Smári svarar því. Orðin Áldraumar verkalýðsrekenda eru tilvitnun í orð Jónasar Kristjánssonar. Það kemur ekki fram í fyrirsögn á vefnum. Ófagleg vinnubrögð

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>