«

»

Molar um málfar og miðla 280

Einhver kann að halda að Molaskrifari sitji með stækkunargler og lúslesi prentblöðin og netblöðin til að leita uppi ambögur. Svo er ekki. Þær  hreinlega hrökkva framan í Molaskrifara af síðum og skjám. Sama er með útvarp og sjónvarp. Ambögurnar þar  stinga í eyru.  Lítil minniskompa er sjaldan langt undan. Þá punktar Molaskrifari hjá sér, það sem honum finnst vera athugvert eða orka tvímælis.  Hlustar síðan  aftur á  netinu,sé þess kostur, til að ganga úr skugga um að ekki  hafi honum misheyrst. Íslensk orðabók, Mergur málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson  og fleiri handbækur, eru oftast innan  seilingar að ógleymdum netorðabókum og beygingarlýsing íslensks máls á netinu er svo sannarlega  til halds og trausts.

 Hversvegna í ósköpunum þurfa íþróttafréttamenn RÚV  sí  og æ að tala um að taka þátt á móti (RÚV  sjónvarp  31.03.2010) ? Menn taka þátt í einhverju ekki  á einhverju.

Kafarinn féll í yfirlið neðansjávar og lést í dag eftir lífgunartilraunir. Þetta er úr mbl. is (30.03.2010). Ekki verður annað sagt en að þetta sé  heldur aulalega orðað. Kafarinn lést ekki eftir lífgunartilraunir. Hann hefur verið látinn, er þær hófust. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.  

Keppendum og áhorfendum á Ólympíuleikunum, sem haldnir verða í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 2016, gæti beðið óvenjuleg sjón ...  Þetta er úr dv. is (29.03.2010) Hér ætti að standa : Keppenda og  áhorfenda…gæti beðið óvenjuleg sjón..  Eitthvað bíður einhvers.

Samkvæmt björgunarsveitarmönnum þá þurftu þeir …. Samkvæmt Höskuldi Schram, fréttamanni Stöðvar 2... Þessi tvö setningabrot eru úr sömu fréttinni, sem birt var á visir.is (28.03.2010). Það er  ambögulegt orðalag að segja  samkvæmt þessum og  samkvæmt hinum.

Eftirfarandi er frá Bjarna Sigtryggssyni (26.03.2010):

„RÚV segir svo í Netsíðufyrirsögn:
Hættuleg eiturgös við eldstöðvar.
Netmoggi orðar þetta hins vegar betur: Varað við banvænum eiturgufum….
Ég fæ ekki betur séð en no. *gas* sé eintöluorð. Íslensk orðsifjabók telur orðið vera frá því um 1800 og merkja „eldfim lofttegund.“ Orðið var myndað af efnafræðingnum van Helmont í Brussel (látinn 1644) með hliðsjón af gríska orðinu kháos: tóm, loftrúm, óskapnaður (betur þekkt væntanlega nú til dags sem *kaos* eða ringulreið).“
 Um margt er ég sammála þér, Bjarni, en í beygingalýsingu íslensks máls  hjá Orðabók Háskólans er  fleirtalan af gas , –  gös og reyndar hef ég alloft heyrt það. Fannst það asnalegt fyrst, en er  nú sáttur við það.

Úr visir.is (27.03.2010) : Nú um kl.18:00 í kvöld varð smá breyting á vind þannig að gufu og ösku leggur nú í átt að gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls. Smábreyting á vindi

 Mest spilaðasta lag... sagði  fréttamaður RÚV, er kynnt var efni Kastljóss (26.03.2010) Mest spilaða lag , – átti þetta auðvitað að vera.  Meira  frá RÚV, úr fréttum (27.03.2010): Lítil fisvél hlekktist á. Fréttamaður hefði átt að segja: Lítilli  fisvél hlekktist á.  Einhver hlekkist ekki á, heldur hlekkist einhverjum á.  Gera verður þær kröfur til fréttamanna RÚV  að þeir kunni skil á  frumreglum íslenskrar málfræði. Svo var ekki í þessu tilviki.

 Gettu betur hefur verið  vinsæll þáttur. Spyrill þar sagði (27.03.2010):  Hvernig kemur þetta út stigalega séð?   Ógott. Nóg hefði verið að segja: Hvernig standa stigin ?

Guðmundur Kristjánsson sendi Molum eftirfarandi vegna  fréttar í visir.is (24.03.2010): Hundur beit bréfbera. „Tæplega fimmtugur bréfberi, sem var bitinn af hundinum Skugga við
skyldustörf, tapaði máli…“
Veist þú nokkuð hvað þessi Skuggi starfar við? :o)
Eða ætli kommurnar hafi kannski villst? Eða orðin ruglast í röðinni?Það hefur  sitt af hverju brenglast við ritun  þesarar fréttar ! Takk fyrir þetta Guðmundur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>