Boðorð blaðamanna
Nýlega fann Molaskrifara gamla úrklippu úr Morgunblaðinu,sem hann hafði lagt inn í bók og stungið upp í hillu. Úrklippan er frá 30. ágúst 1997 og ber fyrirsögnina: „Tólf boðorð góðrar blaðamennsku“. Boðorðin eru tekin úr ræðu sem spænski rithöfundurinn Camilo Jose Cela hélt á heimsþingi rithöfunda í Granada það sama ár. Camilo Jose Cela hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1989.
Gefum rithöfundinum orðið:
„Blaðamenn eiga að segja frá því sem er að gerast, ekki því sem þeir vildu eða halda að sé að gerast.
Þeir eiga að segja sannleikann umfram allt og hafa það í huga að lygar eru ekki fréttir.
Þeir eiga að vera hlutlægir eins og spegillinn og gæta þess að lita ekki skrifin með orðavali sínu og hinum ýmsu blæbrigðum málsins.
Blaðamenn eiga að vera hógværir og forðast rangfærslur. Blaðamennskan er hvorki kjötkveðjuhátíð né hryllingsherbergið á vaxmyndasafni.
Þeir eiga að vera óháðir í skrifum sínum og taka ekki afstöðu í hinu pólitíska dægurþrasi.
Góður skilningur á að vera aðal hvers blaðamanns en honum ber að forðast að láta tilfinningar eða hugboð ráða ferðinni.
Blaðamenn eiga að hafa hliðsjón af ritstjórnarstefnu blaðsins,sem þeir starfa við. Sérhvert dagblað á að vera ein heild en ekki einhver summa ólíkra viðhorfa. Þau eiga sér sinn stað í greinum og dálkum þar sem menn skrifa undir nafni.
Blaðamenn eiga að berjast gegn hverskonar þrýstingi, hvort sem hann er af félags- eða trúarlegum rótum runninn, pólitískum eða efnahagslegum og svo framvegis. Það á einnig við um þrýsting innan fyrirtækisins.
Það er ágætt fyrir blaðamenn að hafa það í huga að þeir eru ekki sjálfir í hringiðu atburðanna heldur bergmála þá.
Blaðamenn eiga að vera gagnorðir og sýna tungumálinu fullkomna virðingu. Fátt er hjákátlegra en þegar blaðamenn búa til sinn eigin orðaforða eftir hendinni.
Blaðamenn verða að standa vörð um sóma sinn og stéttar sinnar, sýna fyllstu kurteisi en beygja sig ekki fyrir neinum.
Og að lokum: Blaðamenn mega aldrei taka þátt í að úthrópa fólk, kynda undir slúðri eða smjaðra fyrir einhverjum. Fyrir það fyrstnefnda uppskera menn vanþóknun, slúðrið er skammlíft og smjaðraranum er launað með fyrirlitlegu bakklappi.“
Og svo þessi viðbót frá Nóbelshöfundinum : Virðing fyrir sannleikanum á að vera leiðarstjarna hvers blaðamanns. annars á hann skilið sömu ofanígjöf og Graham Greene veitti Anthony Burgess:„Annaðhvort ertu óupplýstur eða þú ert haldinn þeirri illu áráttu sumra blaðamanna að blása upp og ýkja atburði á kostnað sannleikans“.
Þeir sem ekki kunna deili á Graham Greene og Anthony Burgess geta leitað fanga á netinu.
Gleðilega Páska !
Skildu eftir svar