Stundum verður óskiljanlegur talnaruglingur í fréttum. Morgunblaðið segir (05.04.2010) frá kínversku kolaskipi er strandaði undan ströndum Ástralíu: 950 þúsund lestir af olíu eru um borð í skipinu, sem var að flytja kol til Kína þegar það strandaði. Hvernig skyldi kolaflutningaskip, sem er með 950 þúsund lestir af olíu innanborðs líta út? Auðvitað hafa þetta verið 950 lestir. Skrifað án hugsunar. Sama henti Ríkisútvarpið í annarri skipafrétt (05.05.2010) á þessum sama sólarhring. Sagt var frá suður kóresku olíuskipi,sem sómalskir sjóræningjar náðu á sitt vald. Í frétt sem margendurtekin var frá miðnætti var alltaf sagt að í skipinu væru tvær milljónir tonna af olíu. Þetta hefur samkvæmt því ekki verið nein smáfleyta. Enda sagði um skipið í fréttinni: Það er 333 metrar á lengd og 319.000 tonn að stærð. Það var svo loks í sjö fréttum um morguninn að menn voru farnir að hugsa sæmilega skýrt í Efstaleitinu. Þá var réttilega sagt ,að í skipinu væru tvær milljónir tunna af olíu. Eitt er tonn annað er tunna.
Fréttamönnum RÚV er einstaklega lagið að spyrja viðmælendur sína spurninga,sem ógerlegt er að svara. Vikið var að þessu í nýlegum Molum varðandi viðtal við vísindamann um gosið á Fimmvörðuhálsi. Í hádegisfréttum (04.04.2010) var fjallað um deilu unglækna á Landspítalanum. Þá spurði fréttamaður, efnislega: Kalt mat, Hvenær leysist deilan? Bjóst fréttamaðurinn við að svarið yrði : Á miðvikudaginn klukkan kortér yfir fjögur !
Á dv.is halda einföldustu atriði málfræðinnar áfram að vefjast fyrir mönnum. Úr dv. is (04.04.2010): …að þeir sem leggja leið sína um svæðið stafar hætta af sprungunni. Þarna á auðvitað að standa: .. að þeim sem leggja leið sína um svæðið stafar hætta af sprungunni.
Á leiðinni niður sáum við hraunsúluna í loft upp, hún var farin að spýja það hraustlega. Lýsing blaðamanns Morgunblaðsins á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi (mbl.is 01.04.2010)
…flugóhapp varð á Fimmvörðuhálsi í síðustu viku án þess að slys urðu á fólki. (mbl.is. 02.04.2010)Kannski ættum við að láta Mogga njóta vafans og segja,að þetta sé innsláttarvilla.
Í kvöldfréttum RÚV (01.04.2010) var talað um að kappkosta um að sverta nafn sitt... Það er ekki venjulegt að tala um að kappkosta um eitthvað heldur einungis að kappkosta.
Nú orðið geta fréttamenn ekki vitnað í neinn eða haft ummæli eftir einhverjum öðru vísi en að segja: Samkvæmt þessum og samkvæmt hinum. Auðvitað er ekkert að því að segja: Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar. Ekki samkvæmt lögreglunni. Samkvæmt sýslumanninum, er ekki í lagi. Að sögn sýslumannsins…Eða Jón Jónsson sýslumaður segir… En það er með þetta eins og svo margt annað að étur hver eftir öðrum.
Skildu eftir svar