«

»

Molar um málfar og miðla 285

Molaskrifari er einkar íhaldssamur.  Hann hefur jafnan  hlustað á morgunfréttir RÚV  oftast bæði klukkan   sjö og átta. Hann hefur nú  uppgötvað að  morgunfréttir Bylgjunnar  eru oftast betri.  Betra er seint en aldrei, segir líklega einhver. Starfsmannafjöldi og  mikill kostnaður  við fréttastofu skiptir   ekki  sköpum í þessu   tilliti.

  Fréttir Bylgjunnar  klukkan tólf á hádegi eru líka ágætar.  RÚV er með stutt  fréttaágrip virka  daga klukkan tólf á hádegi. Hversvegna ekki  á laugardögum og sunnudögum ? Hversvegna eru ekki fréttir á sömu tímum um helgar og á  virkum dögum? Er ekki fólk á vakt?  Hið nýja hádegisútvarp, sem  tekur við af fréttaágripinu klukkan tólf hefur hvorki orðið  fugl né fiskur, – ekki ennþá allavega. RÚV heldur sig  enn við að  vera með  aðalfréttatíma  dagsins klukkan 12 20. Þetta var víst upphaflega hugsað þannig, meðan allir  fóru heim í hádegismat, að menn næðu fréttum og  gætu svo farið aftur  til vinnu klukkan 12 45. Nú fara menn ekki lengur heim í hádegismat en RÚV situr fast í þessar  tímasetningu.

Hvað fór ykkar á milli ? Svona spurði fréttamaður  RÚV sjónvarps  yfirlögregluþjóninn á Hvolsvelli í   viðtali  um leitina að fólki  sem  hafði yfirgefið bíl sinn á öræfum, með hörmulegum afleiðingum eins og síðar kom í ljós. Hvað fór  ykkur  í milli?,  hefði fréttamaður átt að segja. Fréttastofa  ríkisins gerir ekki alltaf miklar  kröfur um málfar fréttamanna.

Stofnanamáls sér víða stað. Í þættinum  Samfélagið í nærmynd, þar sem oft er áhugavert efni  (RÚV 31.03.2010), var rætt  við formann Landsbjargar um björgunarsveitir og eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Í þættinum talaði umsjónarmaður um að margt hefði breyst  frá því síðast varð stórgos hér á landi. Hann sagði: „…almenningur er orðinn meiri… umfangsmeiri stærð.“ Hann átti  við að fólki hefði  fjölgað.

Tollvörðum á John Lennon-flugvellinum í Liverpool á Englandi grunaði að ekki væri allt með felldu ….Stóð í dv.is (06.04.2010). Tollvörðum grunaði…. Átti  að vera: Tollverði grunaði…

Enn koma  aðilar við sögu. Úr mbl.is (06.04.2010): Stillt var til friðar og að því loknu var aðili færður til yfirheyrslu.  Lögregla kom nefnilega auga á poka með ætluðu maríjúana inni í íbúðinni sem lagt var hald á. Molaskrifara  fellur  líka  illa að sjá talað um ætlað maríjúana.

Alþingismaður, sem reyndar er mikill bögubósi, talaði í útvarpsviðtali (RÚV  06.04.2010) um  að … biðja afsökunar fyrir að hafa tekið  þátt…  Fólk biðst afsökunar á  einhverju, ekki  fyrir eitthvað.

Hvað annað fólst í aðkomu Íslendinga að myndbandinu  skelfilega frá Bagdad, en að  hlusta grannt á  það sem sagt var og og semja neðanmálstexta ?  Fjölmiðlar gera mikið úr  aðkomu RÚV og  tiltekins þingmanns. Það var svo sannarlega   þarft verk að  birta þetta, en  hvað annað var gert en að þýða textann ? Það hefur hvergi komið fram.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>