Í leiðréttingu í Fréttablaðinu (28.04.2010) segir: Þar víxluðust vörumerki Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Vörumerki? Af hverju ekki flokksmerki?
Í hádegisfréttum RÚV (23.04.2010) var fjallað um hugmynd umhverfisráðherra um bann við hreindýraveiðum og rjúpna- og gæsaveiðum á tilteknum svæðum í Vatnajökulsþjóðgarði. Viðmælandi fréttastofu sagði að bannið væri tilhæfulaust. Að eitthvað sé tilhæfulaust , þýðir að það sé upplogið, ekki fótur fyrir því. Hann átti við að bannið væri tilefnislaust. Það er allt annar handleggur.
Í fréttum Stöðvar tvö (25.04.2010) var sagt frá öskuhreinsun á bæjum undir Eyjafjöllum Þá sagði fréttaþulur …. böru eftir böru eftir böru af blautri eldfjallaösku. Hér var átt við hjólbörur, en orðið börur er ekki til í eintölu. Hefur einhver heyrt talað um hjólböru?
Úr dv.is (23.04.2010): Stefán segir að hann hafi ekki haft neina persónulega hagsmuni að gæta í þessu máli . Þetta orðalag er út úr kú. Hér ætti að standa: Stefán segir að hann hafi ekki haft neinna persónulegra hagsmuna að gæta í þessu máli.
Fréttamaður og viðmælandi ( í hádegisfréttum RÚV 24.04.2010) kusu báðir að beygja ekki heiti hins heilsulausa (framliðna) sparisjóðs Byrs. Annar sagði: Stærsti kröfuhafi Byr … hinn Staða Byr…
Andstætt því sem sumir halda er orðið uppgjör ekki fleirtöluorð. Það er aðeins til í eintölu.
Ágætt þótti Molaskrifara, þegar í fréttum heyrðist að formaður Framsóknarflokksins sagðist biðjast margfaldlega afsökunar á framferði flokks síns og forráðamanna hans (2404.2010). Í fréttum hafði nefnilega verið margsinnis sagt, að hann hefði beðist margfalt afsökunar,sem er málleysa fréttamanna. Nú hljóta fleiri að fylgja í kjölfarið.
Skildu eftir svar