Það var ýmislegt athyglisvert við fréttatíma sjónvarpsstöðvanna þriðjudagskvöldið 4. maí. Í fréttum Stöðvar tvö var viðtal við forstjóra Vinnumálastofnunar sem taldi atvinnuleysi fara minnkandi og bjartari horfur framundan. Fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins um atvinnumálin var í allt aðra átt: Ástandið aldrei verra. Þetta var sérkennilegt. Það var einnig athyglisvert að Ríkissjónvarpinu þótti fyrirlestur sem William K. Black lögfræðingur hélt fyrir fullum sal í Háskólanum ekki fréttaefni. Í Kastljósi við tímabært viðtal við þingmann sem fengið hefur hærri styrki en aðrir í prófkjörsbaráttu. Er eiginlega styrkjakóngur. Helgi Seljan sótti fast í spurningum og var vel undirbúinn. Svo var fjallað um frímerkjasöfnun og mengunarslys í Mexíkóflóa.
Viðtal Ríkissjónvarps við Seðlabankastjóra í Kastljósi (03.05.2010) Var skólabókardæmi um afspyrnu vont viðtal. Seðlabankastjóri svaraði því sem um var spurt á tveimur mínútum eða svo, en fréttamaðurinn þvældi og þvældi og virtist annaðhvort ekki heyra eða skilja svörin. . Bankastjórinn endurtök svar sitt að minnsta tvisvar sinnum,ef ekki oftar. Þetta varð óskiljanlegt rugl.
Sjónvarpsfréttamenn ættu að reyna að venja sig af því að baða út öllum öngum þegar þeir koma í mynd á vettvangi. Það er ósköp hallærislegt.
Úr mbl.is, (27.04.2010): Maður sem drakk stíflueyði í Húsasmiðjunni í gær er haldið sofandi og tengdur við öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogsdal. – Manni sem drakk stíflueyði er haldið sofandi… ætti þetta að vera.
Í undirfyrirsögn í DV sagði: Tíminn er naumur því olíumagnið sem streymir út í hafið er þrisvar sinnum meria en vonast var. Það er út í hött að nota í þessu sambandi orðsambandið vonast var . Hér hefði átt að segja … þrisvar sinnum meira en óttast var.
Skildu eftir svar