«

»

Molar um málfar og miðla 304

Mjög orkar það tvímælis, þegar Ríkisútvarpið lætur  fólk flytja okkur tónlistarfréttir (hádegi 13.05.2010),  sem kann ekki að bera fram nafn hin kunna tékkneska tónskálds Antonins Dvoráks (1841 – 1901) Einhver á  tónlistardeildinni hlýtur að geta kennt  fréttamönnum að bera  fram nöfn þekktustu tónskálda heimsins.

 Samsetta myndin af Hreiðari Má Sigurðssyni í fangabúningi, sem Stöð  tvö  birti í fréttum (13.05.2010) er nýtt met í  sóðablaðamennsku hjá  Stöð tvö. Þessi myndbirting  ber ekki bara vott um dómgreindarleysi  heldur sjaldgæfan ritstjórnarlegan subbuskap.

„…enda hafi gríðarlegt tjón verið framið gagnvart íslenskum neytendum“, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö í kvöldfréttum (13.05.2010). Það er rangt að tala um „að fremja tjón“ . Tjón verður, eða eitthvað eða einhver veldur tjóni. Hér hefði mátt segja, að íslenskir neytendur hefðu orðið fyrir gríðarlegu tjóni. Máltilfinning er ekki sterkasta hlið þeirra á Stöð tvö.

  Molaskrifara þykir  líklegt að margir hafi  sperrt eyrun þegar hæstaréttarlögmaður sagði (13.05.2010)  að Jón Ásgeir Jóhannesson væri eignalaus maður. Hver trúir því? Hvert fóru allir aurarnir ? Og svo talar annar bankabófinn um „rannsóknargeggjun“. Það vantar ekki kjaftinn á keiluna, eins og þar stendur.

  Aldrei fellir Molaskrifari sig við orðatiltækið, að vera á tánum í merkingunni að vera á varðbergi. Slæmt þótti honum að heyra  dómsmálaráðherra  landsins tvísegja þetta í stuttu  viðtalið (RÚV 14.05.2010)

   Í fyrirsögn í Morgunblaðinu (14.05.2010) segir: Sleitulaust öskufall.  Þetta er vissulega ekki  rangt, en fallegra hefði Molaskrifara þótt að  segja: Linnulaust öskufall.

   Beygingakerfi tungunnar á í vök að verjast. Eftirfarandi eru úr auglýsingu í Fréttablaðinu (14.05.2010) Leitum eftir starfsfólki í veitingarsal (Svo!) og vanan matreiðslumann í allt sumar. Það væri til bóta  að prófarkalesa  auglýsingar.

Alþjóðlegt dömp, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (14.05.2010). Ljótt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>