«

»

Molar um málfar og miðla 303

Mergsugu Glitni í eigin þágu, er fín forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu (13.05.2010)

Metumferð í íslenskri lofthelgi, segir í fyrirsögn (12.05.2010) á visir.is. Í fréttinni segir síðan: Fjórða daginn í röð var metumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið. Hér er hugtakaruglingur á ferð. Lofthelgi er eitt, flugstjórnarsvæði annað. Samkvæmt reglugerð frá 7. janúar 1985 er lofthelgi svo skilgreind: „Með lofthelgi er í reglugerð þessari átt við loftrými innan lofthjúps jarðar, sem markast of 12 sjómílum frá grunnlínu í samræmi við lög nr. 41/1979.“

Íslenska flugstjórnarsvæðið er hinsvegar 5.2 milljónir ferkílómetrar að  flatarmáli.

Úr mbl.is  (12.05.2010): …þegar hún kom inn í landið, í gegnum landmærin við Kanada. Ekki verður sagt að þetta sé  snilldarlega orðað. Það hefði til dæmis mátt segja: Þegar hún kom til landsins frá Kanada.

 Í Kastljósi RÚV (12.05.2010) talaði umsjónarmaður um Listahátíð Reykjavíkur.  Hátíðin heitir  Listahátíð í Reykjavík, ekki Listahátíð  Reykjavíkur, enda  fjármagnar menntamálaráðuneytið hátíðina að hluta. Á þessu er meginmunur. Það á að nefna hlutina réttum nöfnum. Bogi Ágústsson hafði þetta rétt í fréttum Ríkissjónvarpsins  klukkan 19 00.

 Meira um Listahátíð og  RÚV. Fréttamaður, sem var  við setningu  Listahátíðar, talaði um  kampavínsilm í lofti og  að það væri  vorfílingur, þegar Listahátíð er að byrja. Orðið vorfílingur er ekki íslenska. Það fer lítið fyrir málfarslegum metnaði á   Fréttastofu RÚV.

 Í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins segir: Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli.  Hvað eftir annað er nú sýnd  sjónvarpsauglýsing, þar sem matsveinn segir: Ef það er eitthvað,sem ég meika  ekki, er það……  Þetta er  lýtalaus íslenska að  mati auglýsingadeilar  Ríkisútvarpsins.  Í Efstaleitinu leggja menn sig í líma  við að brjóta  reglur,  sbr. daglega dásömun bjórþambs.

 Úr dv.is (12.05.2010): …þar til honum var vikið frá störfum á síðasta föstudag. Klúðurslega orðað. Betra hefði verið: … þar til honum var vikið frá störfum á föstudaginn var.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>