10. maí 1940 er einn af merkustu dögunum í sögu íslensku þjóðarinnar á síðustu öld. Þá steig breskur her á land í Reykjavík. Landið var hernumið og kaflaskil urðu í Íslandssögunni. Nú eru sjötíu ár frá því að þessir atburðir gerðust. Og hvernig minntist Ríkisútvarp þjóðarinnar þessa sögulega dags ? Það lét það ógert, ef undan er skilið stutt innslag í fréttum. Ekkert í Kastljósi, ekkert í dagskránni. Þetta ber ekki vott um mikla tilfinningu fyrir sögu landsins hjá stjórnendum í Efstaleiti. Það er eins og öll stofnunin hafi látið í minni pokann fyrir íþróttadeildinni og hreinlega gefist upp.
Í danska og norska sjónvarpinu hefur að undanförnu mátt sjá afar fróðlegar heimildarmyndir um hernámið ,hernámsárin og stríðslokin í þessum löndum á liðinni öld. Þar sýna menn sögunni sóma. Það er guðsþakkarvert að hafa aðgang að þessum stöðvum. Að kveldi tíunda maí fékk íslenska þjóðin hinsvegar að sjá dönsku konungsfjölskylduna. Gott er að Ríkissjónvarpið okkar skuli hafa tekið að sér að fylla í skarð Hjemmet , Familie Journalen og Se og Hör. Það var ekki vanþörf á.
Hæstiréttur Reykjavíkur úrskurðaði í gærkveldi.…. las fréttaþulur í áttafréttum RÚV (12.05.2010). Nú vita auðvitað allir, líka sá sem las, að það er ekkert til sem heitir Hæstiréttur Reykjavíkur. Þetta er enn eitt dæmið um hve hættulegt það er að lesa vélrænt og hlusta ekki á það sem maður les.
Kyrrsetningarbeiðnir voru þinglýstar,sagði fréttamaður á Stöð tvö (10.05.2010). Rangt er að tala um að eitthvað sé þinglýst, heldur er einhverju þinglýst. Þess vegna var kyrrsetningarbeiðnum þinglýst.
Komu strandaglópum á lekum bát til aðstoðar, segir í fyrirsögn á visir.is (11.05.2010). Menn sem voru á lekum báti úti á Faxaflóa voru ekki strandaglópar. Strandaglópur er sá sem stendur eins og glópur á ströndinni vegna þess að hann hefur orðið af skipi eða öðru faratæki.
Þegar sagt hafði verið frá þeim búsifjum, sem eldgos og öskufall hefur valdið bændum undir Eyjafjöllum í hádegisfréttum RÚV (11.05.2010) , vísaði þulur hlustendum á nýjar glæsimyndir (af gosinu) á vef RÚV. Þulur hefði átt að láta sér nægja að vísa á nýjar myndir, en láta fólk sjálft um að dæma hvort um glæsimyndir væri að ræða eður ei.
Hið landlæga virðingarleysi fyrir lögum og reglum, sem Salvör Nordal talaði um á blaðamannafundi Siðfræðinefndarinnar í Iðnó, kristallast í áfengisauglýsingum Ríkisútvarpsins.
Skildu eftir svar