«

»

Molar um málfar og miðla 301

Þegar amböguhríðin dynur í eyrum og ambögur stinga  í augu er erfitt að verjast því að láta í sér heyra. 

 

  Það er ekki skortur á sérkennilegum viðtölum um þessar mundir, sbr.  endemisviðtalið við Seðlabankastjóra í Ríkissjónvarpinu á dögunum.   Annað viðtal var  í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi (09.05.2010). Í þetta skipti var rætt við landbúnaðarráðherra. Framkoma fréttamanns var óaðfinnanleg.  En ekki varð betur séð en að ráðherrann væri að borða og tala samtímis ! Svör hans  við eðlilegum spurningum  fréttamanns jöðruðu við að vera dónaleg, ekki bara gagnvart fréttamanni, heldur  áhorfendum öllum. Ráðherrann var raunar eins og álfur út úr hól.

 

   Á vef Árnastofnunar er að finna beygingalýsingu íslensks nútímamáls. Þar er  fljótlegt að  leita sér upplýsinga um vafaatriði. Í frétt á mbl.is (10.05.2010) segir: .. Jarðskjálftahrinan undir Eyjafjallajökli í morgun bendir til þess að enn sé kvika að koma úr mettlinum. Hér er verið að tala um  möttul jarðar. Á netinu  má finna þær upplýsingar, að „Möttull jarðar sé stærsta hvel jarðar og nái frá neðra borði jarðskorpunnar að ytra borði kjarna jarðar á um 2900 km dýpi.“  Á vef Árnastofnunar segir að orðið möttull beygist: möttull, um möttul, frá möttli, til möttuls. Þágufallið mettli er ekki til.   Í  fréttum Ríkissjónvarpsins (10.05.2010)  var einnig  sagt: mettlinum.

 

  Fjölmiðlafólk festist stundum  í tískuorðatiltækjum. Í fréttum Stöðvar tvö (09.05.2010) var tvívegis sagt að eitthvað væri: … handan   við hornið og  fréttaþulur   sagði í lokin … og svo handan auglýsinga.    Fleiri tískuorð:  Í hverri  auglýsingunni á fætur annarri tala  fyrirtæki um að þau geri ,bjóði eða selji  allt  frá  A  til  Ö !  Sennilega eru þau öll með sömu auglýsingastofuna. Málglöggur maður benti  Molaskrifara á annað  tískuorðatiltæki ,sem nú heyrist oft og sést í  fjölmiðlum og  er aulaþýðing úr ensku.  Það er að tala um að menn hamist við eitthvað eins og enginn sé morgundagurinn!   

Í fréttum RÚV  (09.05.2010) var fjallað um  ráðningu fólks til  starfa í  stjórnarráðinu. Í  fréttum  Ríkissjónvarpsins var réttilega talað um  þá hugmynd,sem er  til umræðu,      láta valnefndir annast ráðningar,   en í fréttum   útvarps ríkisins  var tvívegis  talað um valdnefndir. Molaskrifari hélt að þetta  væri misheyrn, en glöggur hlustandi, sem nefndi  þetta að  fyrra bragði  við Molaskrifara, staðfesti að svo var ekki. Hvað er  fólk að hugsa, sem talar um  valdnefndir í tengslum  við  ráðningarmál ? Svarið er einfalt:  Það er ekki að hugsa.   

  pressan.is (09.05.2010): Hin fjögurra ára Veronika er enn eitt fórnarlamb kjarnorkusprengju sem sprakk í Chernobyl árið 1986 og þeirrar geislavirkni sem fylgdi henni.   – Það sprakk ekki kjarnorkusprengja í Chernobyl. Þar láku geislavirk efni út í kjarnorkuveri  fyrir mannleg mistök   með  hrikalegum afleiðingum.  – Ekki trúverðugur miðill,sem þannig segir frá.

  Molaskrifari veltir því fyrir sér  hvaða kröfur um íslenskukunnáttu eru gerðar til fréttamanna á Stöð tvö.   Fréttamaður sagði í stuttri frétt (08.05.2010): Nítján flugvellir á  Spáni var lokað af þessum sökum. Svo bætti hann um betur og  sagði í næstu eða þar næstu setningu:  Búist er við að fjöldinn allur af flugvöllum verði lokað… Kvöldið eftir  (09.05.2010) sagði þessi sami fréttamaður: Ekki er  búist við að Keflavíkur flugvöllur opni.… Svona  bögubósar gengisfella fréttastofu  Stöðvar tvö. Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var sagt: …. á götum Lundúnar  

   Skýrt dæmi um ranga orðnotkun er í þriggja dálka fyrirsögn  í Fréttablaðinu með  myndafrásögn. Fyrirsögnin er svona:  Sauðburður í algleymi. Algleymi er það að gleyma öllu, – algjört minnisleysi. (Já, þetta´er nú algleymi, ef algleymi er til, því ekkert ég man, eða veit eða skil“) Hins vegar  er svo orðið algleymingur, sem þýðir  bæði algleymi og  ákafa gleði.  Það er  betra að  þekkja merkingu orða,   þegar fyrirsagnir eru samdar.

Annað dæmi um ranga orðanotkun, að mati Molaskrifara, var í  Morgunblaðinu (10.05.2010) í myndatexta með  mynd frá minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði. Í textanum sagði:…  á laugardag, 8.maí, voru rétt og slétt  65 ár liðin frá lokum stríðsins í Evrópu. Réttur og sléttur þýðir venjulegur , óbrotinn. Þarna hefði  dugað að  segja að þennan dag hefðu  65 ár verið liðin frá lokum stríðsins í Evrópu. Rétt og slétt  er út í hött í þessu samhengi.     

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>