«

»

Molar um málfar og miðla 300

Molaskrifari hefur nýlokið  við að lesa  kaflann um  samskipti  forseta  Íslands  og útrrásarvíkinga  í siðferðishluta  skýrslu   Rannsóknarnefndar  Alþingis (8. bindi) . Það var skelfilegur lestur. Í engu öðru landi á jarðarkringlunni, nema Íslandi , gæti  forseti  setið áfram  eftir þær    lýsingar  og   skjalfestar staðreyndir, sem þar koma  fram. – Meira að  segja  arfakóngur hefði þurft að segja af sér,  sagði ágætur maður  við Molaskrifara. Ólafur Ragnar Grímsson situr sem fastast á Bessastöðum og svarar fullum hálsi öllum athugasemdum.  Þetta er með ólíkindum, en kannski eftir öðru hjá okkur Íslendingum. 

 Nú  greinir DV okkur frá því (07.05.2010) ,að vor ágæta forsetafrú sé   að greiða fyrir  sölu á eldfjallaösku í flöskum  til útlanda. Það er nú aldeilis gott og blessað og bætir vonandi  í gjaldeyrissjóðinn. Hún segir  dálkahöfundi New York Post , að  ferðamenn streymi nú til Íslands  til að skoða  eldgosið og  menn geti  fengið sér göngutúr í kringum eldfjallið. Auðvitað streyma  ferðamenn  til landsins  vegna  þess hve  bóndi hennar hefur  dyggilega stutt við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í viðtölum við BBC og  fleiri erlenda   fjölmiðla. En kannski er þetta rangt eftir  forsetafrúnni haft.  Kannski eru ummæli hennar slitin úr  samhengi. Kannski hefur  blaðamaðurinn misskilið hana og kannski hefur  hún bara aldrei sagt þetta. Slíkt er mjög algengt  á Álftanesi.

Málfarsráðunautur  Ríkisútvarpsins þarf að  kenna fréttamönnum  hvernig taka  skal  til orða, þegar  talað  er um lokun kjörstaða. Í fréttatíma (06.05.2010) sagði  einn fréttamaður : … eftir hálfa klukkustund  loka kjörstaðir. Hverju loka kjörstaðir?  Annar fréttamaður  sagði í sama fréttatíma :… eftir að kjörstöðum lokar.   Bogi Ágústsson hafði þetta hinsvegar alveg á hreinu í tíu fréttum sjónvarps. Hann sagði… er kjörstöðum var lokað. Bogi nýtur þess að hafa fengið gott málfarslegt uppeldi á fréttastofu Sjónvarps  í tíð Emils Björnssonar fréttastjóra.  Hann er enginn ambögusmiður.

  Stórfróðlegt var viðtal Jóns Guðna Kristjánssonar við Jónas H. Haralz hagfræðing og  fyrrum efnahagsráðgjafa í   Spegli RÚV (04.05.2010). Þeir sem misstu  af því  ættu að hlusta á það á netinu.  

 Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (05.05.2010) var þrívegis  sagt… að minnsta kosti þrír misstu lífið  í frásögn   af óeirðum í Aþenu.   Að tala um að missa lífið er  aulaþýðing úr  ensku. Á  góðu máli  tölum  við um að láta lífið eða  bíða bana,  svo aðeins  tvö  dæmi séu nefnd. Þetta var hinsvegar rétt í tíu fréttum Sjónvarps þar sem talað var um að þrír hefðu látið lífið.

Ótrúlega leiðinlegar eru endalausar „fréttir“ íþróttafréttamanna af þjálfararáðningum og vangaveltur þeirra um hvort þessi eða hinn verði ráðinn til hins eða þessa félags. Molaskrifari efast mjög um að þorri fólks hafi nokkurn áhuga á þessu, en íþróttamenn lifa og hrærast í sjálfhverfum heimi. Annars minnir þetta Molaskrifara á fyrirsögn í færeysku blaði, sem tók hann smástund að skilja. Fyrirsögnin var svona: Venjarinn sakkaður.  Þjálfarinn var sem  sagt rekinn.

 Molaskrifari hefur  gaman  af   útvarpsþáttum  Jónasar Jónassonar þar sem hann  rifjar upp gamlar minningar og  leikur  lög frá liðnum árum.  Sérstaklega skemmtileg var frásögn hans af ferðalaginu með mjólkurbrúsahraðlestinni frá Osló til Hamar !  Fyrir þá sem  sem komnir eru á  efri ár   er þetta  skemmtiefni.   Jónas er samofinn útvarpinu  nánast frá  því Molaskrifari man  eftir sér og það eru allnokkur ár. Jónas  eldist hinsvegar ekki sem útvarpsmaður.

 Úr dv.is (05.05.2010):… framkvæmdastjóri félagsins Lífsvals, sem er einn stærsti landareigandi landsins. Ekki landareigandi…heldur  landeigandi. Byrjendabrek.

 Það var ekki upplífgandi að heyra háværan þingmann Framsóknarflokks (06.05.2010) segja:…. án þess að hafa  ekki neitt  upp úr því. Forsætisnefnd Alþingis  þarf að gefa þingmönnum kost á íslenskunámskeiðum og ekki sakaði að fá snillinginn Gunnar Eyjólfsson til að leiðbeina sumum  um raddbeitingu og framsögn. Þá hættir fólk kannski að skrækja úr ræðustóli.

Í lyftunum í Perlunni er vakin sérstök athygli á því  að bjór og  léttvín séu aðeins afgreidd yfir borðið . Þetta finnst Molaskrifara torskilið.  En hver er þá  hinn möguleikinn? Hann  hlýtur að vera að afgreiða áfengið  undir borðið. Það er  ekki amalegt fyrir þá sem hafa verið drukknir undir borðið.

 Enn var seinni fréttum  Ríkissjónvarpsins  seinkað um tæpar tuttugu mínútur (06.05.2010) í annað skipti í sömu vikunni. Að  mati ráðamanna  í Efstaleiti erum við ,sem  ekki  erum  snaróðir íþróttaáhugamenn, annars flokks fólk,sem ekki þarf að taka tilliti til.   Stundvísi í dagskrá   er aðalsmerki  alvöru útvarps- og  sjónvarpsstöðva. Í Efstaleiti stjórnar íþróttadeildin  dagskránni. Þess vegna er  RÚV eiginlega stjórnlaust  fyrirtæki.

 Örlítið meira um Efstaleiti. Morgunþættir beggja  rása hafa  batnað eftir að breytt var  um umsjónarmenn. Sem  fyrst  ætti þó að  fjarlægja úr dagskránni svonefndan slúðurþátt á Rás  tvö á  föstudagsmorgnum.  Ef  þessi dagskrárliður er talinn  bráðnauðsynlegur  ætti allavega að finna annan  viðmælanda til að slúðra vestan frá Kyrrahafi , – ekki konu sem  slettir endalaust , bölvar og kallar fanga fangelsismeðlimi !  Og hvað kemur það okkur það  við ,  að hún hafi tekið að sér  gamlan hund?  Ef greitt er fyrir þetta rugl , væri þeim aurum betur varið  til dæmis  til að  kynna sígilda tónlist á nóttum á Rás eitt.

Það er gjörsamleg ótæk dagskrársamsetning að sýna klukkan  rúmlega hálf níu á  föstudagskvöld  efni sem er bannað börnum yngri en 12 ára (07.05.2010). Er Ríkissjónvarpið að  reka barnafólk yfir á  Stöð tvö og Skjá einn? Það er engu líkara.

Mál er nú að  Molaskrifum linni að sinni.  Nema þessi fjári sé orðinn að fíkn  !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>