«

»

Molar um málfar og miðla 305

  fréttum RÚV  kl 18 00   (14.05.2010) var sagt: ….í kjölfar beiðnar… Eignarfallið af beiðni er beiðni. Þess vegna hefði fréttamaður átt að   segja: …. í kjölfar beiðni…

   Úr mbl.is (15.05.2010): Nokkur hundruð þúsund manns í Kína hefur þurft að glíma við afleiðingar flóða í suðurhluta landsins. Þetta  er ekki rétt. Rétt væri að segja: Nokkur hundruð þúsund manns í Kína hafa þurft að glíma  við….

 Fyrirsögn á visir.is (15.05.2010): Búast við að breska lofthelgin loki á morgun. Við þetta er  tvennt að athuga. Í fyrsta lagi, þá kemur ekki fram hverju er búist við að breska lofthelgin loki. Í öðru lagi er að öllum líkindum átt við  að búist sé við að breska flugstjórnarsvæðinu, ekki lofthelginni, verði lokað.  Ekki tekur betra  við, þegar fréttin byrjar. Hún hefst svona: Lofthelgin yfir Bretlandi gæti verið lokað frá og með morgundeginum til þriðjudags vegna öskufalls frá Eyjafjallajökli. Nú  dæmið þið, lesendur góðir, um það hvort  svona texti sé  boðlegur í miðli,sem vill vera tekinn alvarlega.

Chelsea sigraði ensku úrvalsdeildina,sagði íþróttafréttamaður RÚV sjónvarps (15.05.2010). Þar lá úrvalsdeildin í því !

 Það segir sitt um forgangsröðun ráðamanna RÚV, að þeir eyða milljónum á milljónir ofan í Evróvisjónvitleysuna,en hafa svo ekki ráð á því að kynna  sígilda tónlist,sem  leikin er á nóttum á Rás eitt. Það eru ekki menningarvinveitt öfl sem ráða  ferðinni í dagskrárgerð  þessa fjölmiðils allra landsmanna.

  Molaskrifari heyrði niðurlag samtals Sigurðar G. Tómassonar við Ólaf Ísleifsson í Útvarpi Sögu í endurteknum spjallþætti  að  morgni sunnudags (16.05.2010). Sigurður G. er  nánast eini maðurinn á þeirri stöð,sem hlustandi er á. Það var þarft hjá Sigurði að minna á ummæli Péturs Blöndals alþingismanns um  ,,fé án hirðis“ í sparisjóðum landsmanna. Á þessu þrástagaðist Pétur  þar til árásir voru gerðar á  sparisjóðina ,sem  flestir voru gamalgrónar og  traustar stofnanir.  Þar héldust í hendur þær systur ágirnd og græðgi með hörmulegum afleiðingum. Þessum þætti þingmannsins Péturs Blöndals hefur ekki verið haldið nægilega á lofti.

 Fyrir tuttugu árum var SPRON, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, ein traustasta peningastofnun landsins. Sama mátti segja um sparisjóðina í Keflavík,Hafnarfirði og Borgarnesi. Nú eru þessir  sjóðir ekki lengur til. Þeir  voru tæmdir innanfrá, – en með öðrum hætti en bankarnir. Mál stjórnenda sumra þeirra  eru nú til rannsóknar hjá Efnahagsbrotaldeild ríkislögreglustjóra.

   Molaskrifari ræddi nýlega við kunningja sinn umfjöllun DV um Vestmannaeyjakonuna vellríku ,sem nú á Moggann að mestu leiti. Hann sagði;  Manstu ekki eftir gömlu auglýsingunni?  Gunnlaugsbúð sér um sína. Molaskrifari var reyndar búinn að gleyma henni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>