«

»

Molar um málfar og miðla 312

Ekki heyrði Molaskrifari betur en í veðurfregnum  að morgni dags (22.05.2010) væri  talað um norðnorðaustan logn í Reykjavík! Það er  mikil blíða. En kannski var  Molaskrifari bara milli  svefns og vöku og heyrði eitthvað,sem aðrir ekki heyrðu! Molaskrifara misheyrðist ekki. Sama orðalag var notað, tvívegis, í veðurfréttum að morgni Hvítasunnudags (23.05.2010). Þá var talað um norðnorðvestan logn og suðsuðaustan logn.  Þetta er Molaskrifara alveg nýtt.

  Óvenjulega gott málfar var í átta fréttum RÚV að morgni Hvítasunnudags. Hrós fyrir það.

 Glæsileg fyrirsögn á pressan.is (22.05.2010): Nettur 90’s fílingur í Prep for Colour línunni frá MAC !

Íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarpsins er ekki sérstaklega annt um að vanda mál sitt. Eftirfarandi dæmi eru úr sama íþróttafréttatíma  Ríkissjónvarpsins (22.05.2010):

fékk rautt spjald fyrir  kjaftbrúk,  leikmaðurinn fékk  rautt spjald fyrir ljótan munnsöfnuð. Hefur ekki riðið feitum hesti  að undanförnu… Þetta er bara bull. Orðtakið er að ríða ekki feitum hesti frá einhverju, –  að komast ekki vel frá einhverju. …  liðið væri komið með níu fingur á Þýskalandsmeistaratitilinn, — ekki er þetta íslenskulegt, þótt skiljist  við hvað er átt. Og í lokin  dæmi um vonda notkun þolmyndar:  Vel var mætt af áhorfendum.  Íþróttafréttamaðurinn átti við  að áhorfendur hefðu verið margir.

  Nú er hægt að veðja á hinar  ýmsu útkomur sveitarstjórnarkosninganna , sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins í kvöldfréttum (22.05.2010). Þetta finnst Molaskrifara  ekki vel að orði komist.

 Sjónvarpsuglýsing Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þar sem Hanna Birna borgarstjóri er í aðalhlutverki er afspyrnu vond. Borgarstjórinn horfir hálf hjárænulega á ská út  í bláinn. Það er eins og  hún þori ekki að horfast í augu við kjósendur, sem auglýsingunni er beint að. Lýsandi dæmi um slæma  ráðgjöf á  sviði almannatengsla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>