«

»

Molar um málfar og miðla 322

Úr dv.is (07.06.2010): Hún segist ekki hafa mætt andstöðu innan flokksins eftir úrslit kosninganna en flokkurinn hlaut afhroð í kosningunum og náði aðeins einum borgarfulltrúa inn. Á íslensku er talað um að gjalda afhroð eða bíða afhroð, bíða herfilegan ósigur,  ekki hljóta afhroð. Dv.is  fær engu breytt um það. Meir úr dv.is þennan sama dag:Meira en 22.700 þúsund manns hafa misst lífið í fíkniefnastríðum í landinu…  Á íslensku missa menn ekki lífið, menn láta lífið. Bögubósar.

Bjarni Sigtryggsson, Molavin, er iðinn við að senda Molum línu. Hann skrifar: Í fréttatíma RUV allan sunnudag fjallaði fréttamaður endurtekið um Eiðsgranda í Reykjavík. Þetta var svo ekki aðeins endurtekið í síðdegisútvarpi Rásar 2 nú á  mánudegi, heldur leiðrétti umsjónarmaður sig, sagði fyrst réttilega Eiðisgrandi, en hikaði svo og leiðrétti sig og sagði Eiðsgrandi. Svona geta rangfærslur smitað út frá sér.  Já , Molaskrifari, hefur alltaf  haldið að hið rétta heiti  væri Eiðisgrandi, dregið af  bæjarnafninu Eiði. Hann hefur ekkert á móti Eiðsgranda, en það nafn er að finna í  götuskránni í nýrri  símaskrá og raunar  virðist það vera að útrýma hinu gamla og  líklega kórrétta nafni, Eiðisgrandi.

Því má bæta við að sé orðið Eiðsgrandi slegið inn á leitarvef Google  birtast 2270  tilvísanir  en aðeins  394 ef orðið Eiðisgrand er  slegið inn. Kann einhver  skýringar á þessu ? Eiðisgrandi er hið rökrétta heiti og þar breytir engu þótt eiði þýði grandi,  eða lág og mjó landræma milli ness (höfða) og meginlands eins og segir í Íslenskri orðabók.

 Ekki heyrði Molaskrifari betur en íþróttafréttamaður RÚV (07.06.2010) segði Fylkir eiga harma að hefna. Vonandi var það misheyrn. Nýr íþróttafréttamaður  Stöðvar tvö er áreiðanlega vel að sér um íþróttir   en nokkuð  skortir á  nægilega gott  vald á móðurmálinu. Dæmi úr  íþróttafréttum (07.06.2010): … og verður þeim gerð  skil… Hefði betur  sagt: ..og verða þeim gerð  skil.

 Þórsmörk er ekki nema  svipur hjá sjón.. sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps (07.06.2010). Þarna finnst Molaskrifari  að nægt hefði að segja , að Þórsmörk væri ekki svipur hjá sjón.

  Falleg frétt á Stöð tvö (07.06.2010) um fimm ára telpu, sem fór í verslunarleiðangur  með sparibaukinn sinn til að kaupa  afmælisgjöf handa  pabba sínum.  Lögregluþjónn kom henni til bjargar og  hjálpaði upp á sakirnar, þegar innihald  sparibauksins reyndist of rýrt til bindiskaupa. Fréttamaðurinn, sem las fréttina, sagði stúlkuna hafa verið sjö ára ( fimm ára sagði fréttaþulur nokkrum sekúndum fyrr). Auðséð var  af myndum, að hér var ekki um sjö ára telpu að ræða. Molaskrifari veltir fyrir sér ábyrgð foreldris ,sem sendir  fimm   ára barn  einsamalt  til að versla í Haugkaupum í Garðabæ. Barnið   hefur  að líkindum þurft að fara yfir  fleiri en eina umferðargötu , – en allt  endaði þetta vel.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>