«

»

Molar um málfar og miðla 328

Hennar hugur virðist hins vegar enn vera hjá Reykjavíkurborg og því myndi hún ekki gefa kost á sér.(mbl.is.13.06.2010). þessi setning er ekki í lagi.  Verið var að  fjalla um hvort Hanna Birna ,senn fyrrverandi  borgarstjóri, mundi gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum undir lok þessa mánaðar. Fyrri hluti setningarinnar er  getgáta blaðamanns, en seinni hlutinn  er eins og hafður eftir  Hönnu Birnu í óbeinni ræðu. Þarna  hefði annaðhvort átt að standa: Hugur hennar væri enn hjá Reykjavíkurborg og því myndi hún ekki gefa kost á sér. Eða:Hugur hennar er enn hjá Reykjavíkurborg og því gefur hún ekki kost á sér.

   Síðar í þessari sömu frétt á mbl.is segir um áform Hönnu Birnu: …hyggst ekki gefa kost á sér í varaformann Sjálfstæðisflokksins á næstkomandi landsfundi.  Gefa kost á sér í  varaformann ! Af hverju á næstkomandi landsfundii ? Svona orðalag er Morgunblaðiðnu ekki samboðið.

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (13.06.2010) var  sagt frá lóninu í gíg Eyjafjallajökuls Sagt var,  að vatnið ætti eftir   tuttugu til þrjátíu metra að barmbrún gígsins.  Hér hefði verið réttara að segja  að vatnið ætti eftir tuttugu til þrjátíu metra að gígbarminum. Barmur er nefnilega brún eða jaðar.

Úr dv.is (13.06.2010): Hinn tvítugi Xu, var að hella steypu ofan í hrærivélina þegar steypupokinn festist í spaða í vélinni, og dró hann ofan í vélina. Skilur einhver þetta ? Hella stepu úr poka ofan í hrærivél ???

  Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.06.2010) var frétt um  blóðug átök þjóðernishópa í  Kirgistan. Talað var  að veitt hefði verið  leyfi  til að drepa,  og talað um uppþot,sem tekið hefði áttatíu líf. Þarna var hver ambagan eftir aðra. Frétt um sama efni var langtum betur orðuð í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sama dag. Þar var til dæmis  talað um að  heimilað hefði verið að skjóta fólk til bana en ekki að gefði hefði verið leyfi til að drepa. 

   Frétt Morgunblaðsins af þessum  sömu atburðum er svo sannarlega ekki til að hrópa húrra fyrir. Þar segir meðal annars:  Að svo stöddu hefur mestöll borgin verið lögð í rúst.Múgurinn hefur stolið mestöllum mat sem í borginni var að finna og sigri hrósandi fylkingar kirgskra karlmanna tóku við stjórn borgarinnar í dag á meðan 250.000 Úsbekar sem eftir eru í borginni hafa byrgt sig inni í hverfum sínum.Þá virðist her og lögregla vera í vörn um allt suður landsins og óvíst er um framtíð stjórnvalda en Rússar hafa neitað að grípa inn í átökin.  Lesendur dæmi. Það er ekki bara að ein og ein fjóla spretti á málakri Mogga. Þar dafna nú heilu fjólubreiðurnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>