«

»

Molar um málfar og miðla 329

Gleðilega hátíð !

 Í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu (17.06.2010) um dagskrá þjóðhátíðardagsins í höfuðborginni segir að milli klukkan 13 00 og  16 00   sé Hópakstur Krúsers og síðan sýning. Krúserbandið leikur. Hefði Jón Sigurðsson  skilið þetta?  Áreiðanlega ekki.  Hér  hafa menn tekið   enska orðið  cruiser og , skrifað það eftir framburði og   nota það um stóra bandaríska fólksbíla, dreka frá sjötta og sjöunda áratugnum.  Bandaríkjamenn kalla þessa bíla ekki   cruisers, það orð er einna helst  notað um   lögreglubíla, sem sinna eftirliti og útköllum, eða leigubíla, sem  hringsóla í leit að farþegum. Ósköpin ná  svo  hámarki  þegar enska  fleirtöluessið er sett á orðið  þannig að úr verður krúsers. Um orðið  Krúserbandið er lítið annað að segja að  þar eru á ferð tvö  ensk orð sem verið er að troða inn í íslensku og þar lætur Þjóðhátíðarnefnd Reykjavíkur ekki sitt eftir liggja.

  Gott var að heyra Björn Malmquist fréttamann  taka svo  til orða í frétt um skiptingu embætta í borgarstjórn  Reykjavíkur (15.06.2010), að ekki  væri vitað hvort Hanna Birna mundi þekkjast það boð, – að verða   forseti borgarstjórnar. 

Íþróttafréttamaður  Ríkisútvarps sagði í  hádegisfréttum (14.06.2010) … valið fór  fram af íþróttafréttamönnum.  Íþróttafréttamenn völdu… hefði hann betur sagt.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (14.06.2010) var talað um meiri fjölda = fleiri.

 Þannig  sagði Morgunblaðið frá ræðu formanns  Sjálfstæðisflokksins í  eldhúsdagsumræðunum (14.06.2010): Bjarni Benediktsson telur að í kjölfar hrunsins hafi ekki verið við öðru að búast en að traust til Alþingis myndi rýrast.Stöðugt rýrnar traust mitt á íslenskukunnáttu þeirra,sem skrifa fréttir til birtingar á mbl. is. Þeir eru sumir heldur rýrir í roðinu.

Beygingarnar vefjast  fyrir þeim á visir,is (14.06.2010): Bæði hann og eiginkonu hans, Leonie, er boðið í brúðkaup Viktoríu á laugardaginn kemur. Hann er ekki boðið, heldur er honum boðið.  Heldur slöpp frammistaða, Vísismenn.

Fréttamat fréttastofu Ríkisútvarpsins er oft svolítið  einkennilegt. Í fréttum af eldhúsdagsumræðunum,sem fram fóru að  kveldi  14. júní var  það  fyrsta frétt í nokkrum fréttatímum, að formaður  Sjálfstæðisflokks hafði sagt að Alþingi nyti ekki trausts. Næsta  var  sagt   frá ummælum formanns Framsóknarflokksins. Þar var  ekkert sem hann hafði ekki  margsagt áður.  Ummæli  fjármálaráðherra um þinglok  og einkavæðingu vatns  voru  hinsvegar það eina sem  var fréttnæmt úr ummælum þessara þriggja ræðumanna.

Versti útvarpsþátturinn á öldum ljósvakans um þessar mundir , er örugglega þáttur  Guðmundar Franklíns Jónssonar  í Útvarpi  Sögu. Þar fer saman glórulaust ofstæki, ósannindi, fáfræði og fordómar. Dæmi: Íslenska þjóðveldið var stofnað 17. júní 930 !  Og: Hver er eiginlega munurinn á að kvænast og giftast? Lágkúran í þessum þætti varð einna  mest er umsjónarmaður ræddi við  þingmann  Framsóknarflokksins, Vigdísi Hauksdóttur nýlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>