«

»

Molar um málfar og miðla 333

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (19.06.2010) var sagt frá  brúðkaupi sænsku prinsessunnar Viktoríu og hennar tilvonandi eiginmanns.  Í fréttinni var sagt frá  hátíðartónleikum með þessum orðum: Tónleikunum lauk með barnakór… Þetta orðalag  er út í hött. Tónleikunum lauk með söng  barnakórs,  eða með því að barnakór söng.  Sami féttamaður   talaði í sömu frétt um að ganga í hnapphelduna.Frá hnappheldu ( hafti sem sett er á framfætur hesta) segir á bls.  363 í Merg málsins eftir  dr. Jón G. Friðjónsson.  Þar er talað um að  fá á sig hnapphelduna (kvænast), koma á  e-n hnappheldunni, leggja  á  e-n hnapphelduna  og  vera kominn í hnapphelduna. Engin dæmi eru þar um að ganga í hnapphelduna eins og fréttamaður sagði. Þetta orðalag virðist vera seinni tíma tilbúningur  fjölmiðlunga. Fréttamenn ættu að hafa   Merg málsins innan seilingar, þegar þeir  skrifa fréttir.  

 Marglesin var í Ríkisútvarpinu (19.06.2010) tilkynning,sem hófst svona. Yfirlitssýning Hafsteins Austmanns í Gerðarsafni lýkur…. Sýning lýkur ekki. Sýningu lýkur.

 Stöku sinnum er hægt að hlusta á þætti í Útvarpi Sögu. Molaskrifari hlustaði sér til ánægju á  viðtal við Egil Ólafsson (líklegt fyrst á dagskrá  16.06.2010) um skipulagsmál í  Reykjavík.  Egill vakti athygli á þeim mörgu skemmdarverkum,sem unnin hafa verið, – til dæmis með niðurbroti  sögufrægra húsa við Skúlagötu, húsa sem mörkuðu spor í atvinnusögu þjóðarinnar.  Í  stað þeirra voru reistir  forljótir   steyputurnar, sem  sumir að  auki reyndust illa byggðir. Egill benti réttilega á þá  firru  að reisa háhýsi á lægstu blettum borgarinnar. Þau ættu að gnæfa á hæðum þar sem þau skyggðu ekki á útsýni neins.  Molaskrifari hafði lúmskt gaman af því hve oft   spyrill bar upp lokaspurningu í þessu ágæta viðtali.

  Við að hlýða á Egil Ólafsson og  athyglisverð sjónarmið hans varð Molaskrifara  hugsað til   Rauðarárstígsins, en frá  Háteigsvegi að Hlemmi hefur hin gamla austurhlið götunnar verið lögð í rúst og þar reistir forljótir, karakterlausir steinkumbaldar.  Norðurmýrin, reiturinn sem afmarkast af  Miklubraut, Snorrabraut, Njálsgötu og Rauðarárstíg   er enn  heillegt hverfi,sem ekki hefur verið skemmt. Þar eru  húsin  byggð líklega   frá  1937  til 1941  eða þar um bil.  Vonandi verða  ekki unnin skemmdarverk þar.  Enda  er sá siður víst úr sögunni,sem lengi hefur verið við lýði að  verktakar geti  keypt sér borgarfulltrúa  til að skaffa sér sér lóðir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>