«

»

Molar um málfar og miðla 341

Velunnari Mola sendi eftirfarandi:  Myndatexti á Pressunni eftir Mörtu Maríu Jónasdóttur: „Það er hrikalegt að sjá hármissirinn á Naomi Campbell.“  Ekki mikilli  ritleikni fyrir að fara á þeim  bænum og  raunar ekki heldur í þessu dæmi  af Pressunni (29.06.2010): Sérstakur saksóknari segir að þeir fyrstu sem embættið ákærði fyrir umboðssvik gefist nú tóm til þess að átta sig. Villan í þessari setningu  er flestum svo augljós að um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

 Það varð Ríkissjónvarpinu  tilefni sérstakrar fréttar (29.06.2010) að kvöldið eftir  yrðu fréttir á réttum tíma.  Þetta var rétt  fréttamat. Engin önnur  ríkissjónvarpsstöð  misbýður  fólki með  jafnmiklum fótbolta og Ríkissjónvarp Íslendinga. Látum vera þótt sýndur  væri einn leikur á  dag meðan þessi keppni stendur yfir. En hið sjálfumglaða,endalausa og  innihaldslausa  blaður á undan og eftir öllum leikjum er  venjulegu fólki óskiljanlegt. Það er því miður ekki  hægt að segja upp áskrift að RÚV. Þetta er lögbundin nauðung  og það notfæra menn sér í Efstaleitinu. 

Úr myndatexta á forsíðu Morgunblaðsins (29.06.2010): Katlarnir hafa brætt gríðarlegt magn af ís,sem rennur nú í Skaftá og Eldvatn. Í sameiningu mynda árnar og hinn bráðni ís gríðarlegt hlaup…Nú  má vel vera að Molaskrifari sé  farinn að  ryðga í þeirri  jarðfræði, sem hann  lærði á  sínum tíma. Hann hefði þó haldið að katlarnir  bræddu ekki eitt eða neitt , heldur  safnaðist í þá vatn sem  jarðhiti  undir jöklinum  bræðir. Þá er sérkennilegt að tala um að ís  renni í  Skaftá og Eldvatn og að árnar og hinn bráðni ís myndi hlaup.  Kannski er þetta bara sérviska Molaskrifara?

Nú lifa lesendur Morgunblaðsins nýja  tíma.  Nú hirta ritstjórar blaðsins opinberlega og með myndbirtingum, þá  þingmenn sem ekki hafa skoðanir að  skapi  húsbænda í Hádegismóum. Það er líka nýlunda í íslenskri blaðamennsku að þegar  dylgjað er nafnlaust („þingmaður með víðtæka reynslu úr mörgum flokkum“) er  birt mynd af þeim þingmanni,sem væntanlega er átt við og  nafn undir myndinni, svo ekkert fari nú milli mála. Um leið er  Morgunblaðið að hirta  allan þann fjölda bæði í forystusveit og grasrót  flokksins,sem hefur skoðanir í Evrópumálum,sem  ekki eiga upp á  pallborðið við austanvert Rauðavatn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>