«

»

Molar um málfar og miðla 345

Mörg gullkornin hafa hrotið af  vörum íþróttafréttamanna og þeirra sem lýsa gangi knattspyrnuleikja að undanförnu. Vinur Molaskrifara rifjaði upp í samtali  að  á  dögunum hefði einum þeirra,sem lýsa leikjum orðið það á að segja: Hann mundaði  hægri fót og .…. Stundum  eru menn bráðskemmtilegir, –  alveg óviljandi.

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.07.2010) var sagt, að þyrla Landhelgisgæslunnar væri á leið um borð  í skip. Heldur  hefði átt að segja að þyrlan væri á leið að skipi. Í sama fréttatíma sagði fréttaritari  á Suðurlandi að gæði heyjanna væru mjög góð.  Gæði eru gæði ,en ekki góð. Hann hefði betur  orðað þetta á annan veg.  En þetta hefur svo sem heyrst áður.

   Í fréttum hefur verið sagt frá því að Reykjavíkurborg ætli ekki að gera neitt til að aðstoða fátæka og snauða meðan hjálparstofnanir, illu heilli, loka vegna sumarleyfa. Í gamla daga var framfærsla fátækra ein af höfuðskyldum hreppanna. Tíundarlög voru samþykkt á Alþingi 1096/97  og skyldi fjórðungur tíundarinnar renna til fátækra. Reykjavíkurhreppur getur ekki hlaupist frá framfærsluskyldu sinni og allra síst getur hann það undir merkjum Samfylkingarinnar. 

   Annars er synd að hrepparnir  skuli horfnir  sem stjórnsýslueining , þótt  fáeinar sveitir beri enn hreppsnöfn, eins og  til dæmis Skorradalshreppur og Akrahreppur. Þar með  er líka horfið  virðingarheitið hreppstjóri. Mér finnst að góðkunningi minn  Davíð Pétursson  á   Grund í Skorradal ætti áfram að vera hreppstjóri. Oddviti er miklu tilkomuminna starfsheiti.

  Það var einkennilegt að hlusta á viðtal í fréttum Stöðvar  tvö (01.07.2010) við mann,sem talaði um að verið væri traðka á alþýðunni og sparka í verkalýðinn. Hann  hafði að eigin sögn  brotist inn á  geymslusvæði fjármögnunarfyrirtækis og tekið þar bíl traustataki. Taldi fyrirtækið skulda sér. Hann hafði tekið lán hjá þremur  fjármögnunarfyrirtækjum. Er það hinn dæmigerði  alþýðumaður og fulltrúi verkalýðsins,sem tekið hefur þrjú slík lán til  tækja- og bílakaupa? Ég held ekki. Þetta var einkar ósannfærandi. Þessi maður vildi greinilega að aðrir borguðu þau lán,sem hann tók. Ekki hann, sem tók lánin. Nú kannast ekkert  fjármögnunarfyrirtæki við að frá  þeim hafi horfið bíll.  Kannski var þetta bara óprúttinn náungi að  plata Stöð tvö? 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>